Inna

Ágúst Valgeirsson
440 9165

Fjölbreytt skólastjórnunarkerfi

Inna er skólastjórnunarkerfi sem er notað til að stýra námsframboði í skólum, nemendaskrá, umsóknarferli og skipulagningu náms. Hugmyndafræði kerfisins er að dreifa ábyrgð á skráningu þangað sem uppruni gagna er, þannig sjá kennarar um að skrá fjarvistir og einkunnir.

Forráðamenn og nemendur geta skoðað einkunna- og fjarvistaskráningar af nemendavef og foreldravef. Þessi högun hefur verið vinnusparandi og réttleiki gagna aukist og upplýsingagjöf er betri en áður. 

Meðal notenda kerfisins eru skólastjórnendur, kennarar, námsráðgjafar, foreldrar, nemendur, menntamálaráðuneytið og Hagstofa Íslands. 

Inna er tengd við eftirtalin kerfi:

  • Inna sækir upplýsingar um nemendur, starfsmenn og forráðamenn í Þjóðskrá.
  • Inna skilar upplýsingum um nemendur og nám til Hagstofu
  • Menntamálaráðuneytið. Skilar upplýsingum um nemendur og nám til menntamálaráðuneytisins.
  • Inna skilar upplýsingum um álagningu gjalda til Tekjubókhalds ríkisins og annarra fjárhagskerfa.
  • Inna skilar upplýsingum til kennslukerfa, s.s MySchool.
Einingar úr Innu sem notaðar verða í boðinni lausn eru umsóknir, nemendur, athugsemdir, starfsmenn, reikningagerð, aðgansstýring, skýrslur, mæting, dagbók, foreldravefur og kennaravefur.
 

Einingar Innu eru:

Nemendur
Persónuupplýsingar um nemendur, hvar þeir búa, forráðamenn, upplýsingar um námsframvindu nemenda, einkunnir í námsgreinum og viðvera. Athugasemdir (sjá lýsingu síðar) og samskipti við foreldra eru hluti af nemendahluta Innu.

Mæting
Viðverukerfi Innu er mjög öflugt. Skilgreindir eru viðverukóðar, t.d. mæting, veikindi og fjarvist. Hver kóði ber með sér fjarvistastig sem síðan er notað til að reikna út mætingarhlutfall nemenda. Kennarar geta skráð viðveru nemenda beint af vef, hvort sem er einn tíma í einu, einn dag eða viku í senn. Í kerfinu eru ýmsar skýrslur sem sýna viðveru nemenda. Forráðamenn geta nálgast upplýsingar um viðveru barna sinna á vef, en Inna sendir einnig í tölvupósti til forráðamanna upplýsingar um viðveru. Nemendur hafa aðgang að viðveruskrá sinni á nemendavef.

Einkunnir
Í kerfinu er hægt að skrá einkunnir fyrir námsgreinar, hvort sem er sem bókstafi, tölur eða sem umsagnir (frjáls texti). Kennarar skrá einkunnir á kennaravef og geta nemendur og forráðamenn skoðað einkunnir (útgefnar) á nemendavef og foreldravef.

Heimavinna
Kennarar geta á kennaravef skráð inn heimavinnu eða áherslur í kennslu. Nemendur og forráðamenn geta síðan skoðað heimavinnu á nemendavef og foreldravef.

Umsóknarvefur
Á opnum umsóknarvef geta nemendur sótt um nám í þeim skólum sem eru í kerfinu. Nemendur sækja gjarnan um nám í fleiri en einum skóla og forgangsraða umsóknum eftir því hvaða skóli hentar best. Skólarnir hafa síðan aðgang að afgreiðsluhluta umsóknarkerfisins, þar sem þeir sjá hverjir hafa sótt um að koma í nám í skólanum og afgreiða umsóknir eftir þeim forsendum sem þeir setja.

Athugasemdir
Kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnendur geta skráð athugasemd við nemanda. Athugasemdir eru aðgangsstyrðar. Athugasemd getur verið t.d. vegna veikinda sem taka þarf tillit til, greiningar s.s. ofvirkni eða vegna uppákoma í skólastarfi s.s. hegðunar

Námskrá
Í námskrá Innu er nám skóla skilgreint. Þar er skilgreint hvaða námsgreinar eru í boði, t.d. íslenska, enska og stærðfræði og einnig brautir eða kennsluform skóla. Brautin lýsir því hvaða námsgreinar eru teknar á hvaða tímabili. Þannig getur braut lýst námi í 4 ára framhaldsskólanámi, 10 ára grunnskólanámi eða leikskólanámi.

Starfsmenn
Í starfsmannakerfi Innu er haldið utan um starfsmenn skóla, tegund starfsmanns og kennslumagn kennara.

Skýrslur
Í kerfinu eru ýmsar skýrslur, tengdar þeim kerfishlutum sem hér er lýst. Nær öll gögn er hægt að nálgast sem gagnaskrár sem síðan má vinna með.

Stundatafla
Í stundatöflukerfi Innu skipuleggja skólastjórnendur nám hverrar annar eða skólaárs. Töflugerðin hentar bæði áfangaskólum og bekkjaskólum. Einn grunnskóli, Garðaskóli, er að nota töflugerðina til að skipuleggja nám. Hugsanlega mætti nýta stundatöflugerðina til að skipuleggja leikskólastarf innan vetrarins, til að það sé sýnilegt foreldrum.

Próftafla
Í próftöfluhluta Innu skipuleggja skólastjórnendur próftímabil fyrir sína skóla. Skipulagt er hvenær próf eru tekin, hvaða stofur eru notaðar og hvar nemendur sitja í prófum.

Vefþjónustulag
Vefþjónustulag Innu sér um samskipti kerfisins við önnur kerfi. Kerfið býður upp á ýmsar vefþjónustur t.d. vegna álagningu gjalda, tengingu við kennslukerfi eða ef skólar óska eftir að upplýsingar úr kerfinu birtist á heimasíðum skólanna.

Aðgangsstýringar og Dagbók
Í Innu er hlutverkadrifinn aðgangur að vinnuleiðum í kerfinu. Dæmigerð hlutverk í kerfinu er; kennari, skólastjórnandi, námsráðgjafi, áfangastjóri, nemandi og forráðamaður. Mjög auðvelt er að skilgreina ný hlutverk eftir þörfum og veita aðgang að völdum vinnuleiðum hvort sem er með skrif- eða lesréttindi. Allar innskráningar í kerfið eru skráðar. Skráning og breyting á lykilgögnum í kerfinu er skráð í dagbók.

Reikningagerð
Í reikningargerðar hluta Innu er hægt að skilgreina gjöld, taxta og leggja gjöld á nemendur, t.d. eftir námsbrautum og bekkjardeildum. Álagning er send til innheimtukerfa til innheimtu með vefþjónustu. Inna sækir stöðu innheimtu til innheimtukerfa með vefþjónustu.

Kennaravefur
Á kennaravef geta kennarar skráð viðveru, skráð einkunnir og verið í samskiptum við bekkjarhópa sína og forráðamenn. Kennarar geta skoðað allar upplýsingar sem skráðar eru í kerfið um umsjónarnema sína, en einungis það sem snýr að þeim námsgreinum sem þeir kenna fyrir þá nemendur sem þeir hafa ekki umsjón með.

Nemendavefur
Á nemendavef geta nemendur skoðað upplýsingar um námsframvindu sína, valið valfög, skoðað fjarvistaskráningar og einkunnaskráningu. Þeir geta einnig skoðað nemendalista fyrir þá bekkjarhópa sem þeir sitja í.

Foreldravefur
Á foreldravef geta forráðamenn skoðað upplýsingar um börn sín, svo sem námsframvindu, námsval, skoðað fjarvistaskráningar og einkunnaskráningu. Þeir geta einnig skoðað nemendalista fyrir þá hópa sem börn þeirra tilheyra.