Advania og Íslandsbanki í samstarf um rafrænar undirritanir

Nýjasta nýtt
25.05.2016

Íslandsbanki hefur samið við Advania um innleiðingu á Signet, en um er að ræða lausn sem gerir fyrirtækjum og einstaklingum kleift að undirrita skjöl á rafrænan máta. Íslandsbanki hefur þegar kynnt til sögunnar nýja þjónustu sem nýtir Signet, en þar er um að ræða rafræna umsókn greiðslumats.

„Við sjáum mikinn ávinning af rafrænum undirritunum, bæði fyrir viðskiptavini okkar sem og starfsfólk bankans“ segir Finnur Bogi Hannesson, vörustjóri húsnæðislána hjá Íslandsbanka. „Signet gerir okkur kleift að bæta þjónustuna, svara auknum kröfum viðskiptavina um sjálfsafgreiðslu og einfaldar um leið innri verkferla við umsýslu skjala.“  

Með tilkomu rafrænna undirritana er ekki lengur þörf á því að mæta á tilskilinn stað á tilskildum tíma til að skrifa undir skjöl, heldur geta einstaklingar skrifað undir hvar og hvenær sem er, svo lengi sem viðkomandi hefur rafræn skilríki á símanum sínum eða snjallkorti.  

Skjöl sem eru undirrituð með Signet eru með svokallaðri langtíma-undirritun, sem þýðir að undirritunin inniheldur vottaða tímasetningu og staðfestingu á því að rafræn skilríki viðkomandi voru í gildi þegar undirritun var framkvæmd. Í ljósi þessa er ekki lengur þörf á sérstökum vottum að undirritun þegar skjöl eru undirrituð rafrænt með Signet.

„Signet er lausn sem hentar öllum þeim sem vinna með skjöl sem krefjast undirritana“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. „Með Signet er hægt að undirrita skjöl á borð við lánasamninga, fundargerðir, eignaskiptayfirlýsingar og kaupmála svo eitthvað sé nefnt.“

 


Til baka