Advania styrkir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna

Nýjasta nýtt
29.06.2016

Advania og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) hafa skrifað undir styrktarsamning þess efnis að Advania styðji við starfsemi SKB og skjólstæðinga þess. Samningurinn kveður m.a. á um að SKB njóti sérstakra afsláttarkjara á upplýsingatækniþjónustu, auk þess sem skjólstæðingar félagsins hljóti tölvugjafir.

 „Þessi samningur rennir styrkum stoðum undir rekstur SKB, bæði hvað varðar daglega starfsemi félagsins og þau tilfelli þegar ný börn greinast,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB. „Advania hefur á undanförnum árum verið mikilvægur styrktaraðili og við erum virkilega þakklát fyrir stuðninginn við félagið og skjólstæðinga okkar.“

 Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna var stofnað árið 1991 í þeim tilgangi að styðja við krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega. Félagið sinnir auk þess fræðslu- og útgáfustarfsemi um sérstöðu og þarfir krabbameinsveikra barna og fjölskyldna þeirra, og um síðbúnar afleiðingar að lokinni krabbameinsmeðferð.

„Markmið samningsins, sem gildir til tveggja ára, er að styrkja rekstur SKB, enda er þarna unnið gríðarlega mikilvægt starf,“ segir Sesselía Birgisdóttir, markaðsstjóri Advania. „Við höfum verið dyggur stuðningsaðili félagsins á undanförnum árum og það er ánægjulegt að fá tækifæri til að halda áfram að styðja starfsemina og skjólstæðinga þess.“
Til baka