Tilraun sem gaf af sér ávöxt 🍇

Samstarfsverkefni teiknideildar Myndlistaskólans í Reykjavík og Advania.

Mynd er eftir Emblu Hrönn, nemenda við teiknideild MÍR

Markaðsherferð framleidd með hjálp gervigreindar

Fyrr á árinu framleiddi Advania markaðsherferð með hjálp gervigreindar. Herferðin fékk töluverða athygli og var fólk forvitið að vita með hvaða hætti gervigreindin létti til með markaðsfólki. Fjölmörg fyrirtæki hafa innleitt gervigreind með einhverjum hætti í starfsemi sína að undanförnu. Önnur eru með það á teikniborðinu. Það er á hreinu að gervigreind mun vera partur af störfum okkar í framtíðinni. En á það við öll störf?

Kynntu þér herferðina nánar

Boðar gervigreind endalok skapandi vinnu?

Gervigreind er tækni þar sem hægt er að fá vélar til að vinna mannanna verk. Þróunin er hröð þessi misserin og daglega poppa upp ný tól sem eiga það sameiginlega að létta undir með fólki. Hægt er að nýta tólin t.d. til að skrifa úrdrætti úr löngum skýrslum, koma með tillögur að úrlausn vandamála nú eða til að læra nýja hluti.

En gervigreind getur líka gert myndir og skrifað ljóð. Geta þá allir sem kunna að nota gervigreind orðið næsta Frida Kahlo eða næsti Jónas Hallgrímsson? Það er eðlilegt að við spyrjum okkar hvort gervigreind boði endalok skapandi vinnu eða býður þessi nýja tækni upp á nýja og spennandi möguleika fyrir þá listamenn sem kunna að nýta sér hana?

Samspil tækni og fólks

Teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík ákvað að kynna sér þessa nýju tækni og kanna á hvaða hátt hún getur mögulega nýst teiknurum.

Nemendur teiknideildar ásamt kennara kíktu því í heimsókn til Advania og fengu kynningu á framleiðsluferlinu og tækninni sem var notuð við gerð markaðsherferðinnar. Farið var yfir hvernig gervigreind virkar og þá sérstakega með tilliti til myndvinnslu.

Advania og MÍR

Fljótlega kviknaði sú hugmynd að endurgera markaðsherferð Advania en nú með augum nemenda teiknideildar Myndlistaskólans í Reykjavík.

Verkefnið fól í sér að nemendur myndu nýta gervigreind í einhverju hluta af ferlinu. Hvort sem það væri við hugmyndavinnu, útbúa bakgrunn, vinna ofan í efni eða láta gervigreind spinna við þeirra hönnun.

Næsta skref var því að kenna nemendum á öll þessi ólíku tól og þá möguleika sem þau bjóða uppá.

„Til að kynna okkur ferlið nutum við góðrar aðstoðar starfsfólks Advania, sem kynntu fyrir okkur tæknilegu hlið mála. Hver nemandi tókst síðan á gervigreindina og gerði tilraunir með hvernig hann getur nýtt sér hana til byggja ofan á eigin hæfni án þess að missa sjónar á sinni persónulegu nálgun. Flestir nemendur deildarinnar kusu að nýta gervigreindina til að stilla upp myndum sem þeir gátu svo unnið með í sínum stíl. Aðrir mötuðu vélina á skissum og létu hana um að klára handverkið. Hvorutveggja er dæmi um samvinnu manns og vélar.“ Segir Halldór Baldursson, yfirkennar Teiknibrautar MÍR.

1. Kynning

Á bak við hverja mynd eru hundruðir þúsunda ef ekki milljón gagnapunkta.

  • Farið var yfir öll helstu gervigreindar tól sem eru aðgengileg í dag
  • Hvernig mynd er byggð upp og hvernig gervigreindin les úr þeim
  • Hvernig tækninni hefur fleygt fram að undaförnu

2. Kennsla

Starfsfólk Advania kíkti í heimsókn í Myndlistaskólann með það að markmiði að kenna á ólík gervigreindartól.

  • Farið var yfir nokkur tól sem öll höfðu ólíka eiginleika og bjóða þar af leiðandi uppá mismunandi útfærslu og nýtingamöguleika
  • Auk þess var farið yfir fjölbreyttar leiðir til að nota gervigreind við sköpun

3. Verkefni og yfirferð

Nemendur fengu úthlutaða herferðasetningu en höfðu síðan frjálsar hendur við túlkun og útfærslu á efninu.

  • Hægt var að nýta til dæmis gervigreindina við hugmyndavinnu en hún á það til að vera frekar bókstafleg sem gefur oft skemmtilega sýn á viðfangsefnið

Nemendur buðu að lokum starfsfólki Advania í heimsókn þar sem farið var yfir afraksturinn og hvað þau höfðu lært á leiðinni.

Myndir segja meira en þúsund orð

Ólíkar aðferðir voru nýttar við framleiðslu á myndefninu en aðferðirnar eiga það þó allar sameiginlega að markmiðið var að endurskapa og nýta tæknina sem innblástur í verkefnið.

Myndir eru eftir : Moiru, Breka, Mist, Mána, Eilvu, Emblu Eir, Gabríellu Rós, Gabríellu Yasmín, Guðmund, Krumma og Emblu Hrönn, nemendur við teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Gefandi tilraunastarf

Það var virkilega skemmtilegt og fræðandi að vinna þetta verkefni með skapandi listafólki. Það voru margar spurningar sem vöknuðu á meðan verkefninu stóð. Meðal annars hvaða áhrif tól sem þessi hafa á skapandi greinar, hvort þeim langar að nota þessa tækni í framhaldinu eða ekki, hvað má og hvað má ekki og spekúlarsjónir um hvað verður.

Með augum Myndlistaskólans

„Sagan kennir okkur að tæknilegar framfarir hafa reglulega ögrað viðteknum hugmyndum okkar um sköpun. Samtíminn tekst stöðugt á við fortíð sína og við getum t.d dregið þann lærdóm af tilkomu prentvéla og tölvutækni að listin og hæfni fólks til myndsköpunnar hefur ekki beðið hnekki þeirra vegna, heldur verið viðbót við það sem fyrir var. Það fríar okkur hins vegar ekki af þeirri ábyrgð að líta framfarir gagnrýnum augum og vega og meta hvað sé handan við honið.

Nú er gervigreindin mætt á svæðið. Tæknin er komin á það stig að geta tileinkað sér þekkingarbrunn myndlistarinnar af meira umfangi á augabragði heldur en mannshugurinn getur á mannsævi og nýtt sér til að framkalla ótrúlegustu frumgerðir mynda með einföldum skipunum.

Þetta vakti athygli mína þegar Advania setti fram herferð sína unna með hjálp gervigreindar. Herferðin dró fram kosti og galla tækninnar á ögrandi og skemmtilegan hátt og mér þótti tímabært, sem yfirkennari Teiknibrautar Myndlistaskólans í Reykjavík, að nemendur tækjust á við þessa nýju áskorun. Hver yrði aðkoma þessarar nýju tækni í sköpunarferli og myndsköpun teiknara. Höfum við ennþá forskot á sálarlausa tæknina? Við skoruðum því herferð Advania á hólm.“

-Halldór Baldursson, yfirkennari Teiknibrautar MÍR

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Með nýja tækni þá er mikilvægt að temja sér hugsunarháttinn. Hvernig get ég nýtt mér þetta? Við stoppum nefnilega ekki þróunina en tæknin getur hjálpað og létt undir með okkur en einnig ýtt okkur í að hugsa um hluti sem okkur hefur ekki órað um að gera. Ef markmiðið er þá ekki að nýta sér tæknina þá er samt alltaf gott að hafa tilfinningu fyrir því hvernig hún virkar.

Advania þakkar teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík fyrir skemmtilega tilraun og samstarfsverkefni. Um leið óskum við nemendum velfarnaðar í áframhaldandi listsköpun, með hjálp gervigreindar og ekki.

Uppfærðir vefborða með myndum frá teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík

Viltu vita meira?

Eigum við að ræða tækni?

Sendu okkur línu og við höfum samband um hæl.