Nýjasta nýtt - 18.1.2018 16:12:00

Ör vöxtur gagnavera Advania

Gagnaver Advania voru til umfjöllunar í Markaðnum í Fréttablaðinu í vikunni.

Gagnaver Advania voru til umfjöllunar í Markaðnum í Fréttablaðinu í vikunni.
Eyjólfur Magnús Kristinsson forstjóri Advania Data Centers var spurður út í uppbyggingu fyrirtækisins og áætlanir sem gera ráð fyrir að veltan tvöfaldist á þessu ári og verði um sex milljarðar króna.

Rifjað var upp að tæp fjögur ár séu liðin frá því gagnaverið Mjölnir var reist á örskotsstundu á Fitjum í Reykjanesbæ til að mæta mikilli eftirspurn þeirra sem vildu grafa eftir rafmyntum á borð við Bitcoin og Ethereum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og forsvarsmenn gagnaveranna hafa með tímanum laðað til sín viðskiptavini í fjölbreyttari starfsemi.
Eyjólfur Magnús segir rekstur Advania Data Centers byggja á þremur stoðum. „Í fyrsta lagi öllu sem tengist Blockchain-tækninni þar sem er óþrjótandi eftirspurn. Þar höfum við reynt að velja viðskiptavini okkar vandlega og höfum samið við fyrirtæki með góða rekstrarsögu og sem stunda vöruþróun byggða á tækninni. Sem betur fer höfum við lent í fáum skakkaföllum. Þjónusta við þessa viðskiptavini skapar allt að 75 prósent af okkar veltu. Við höfum sóst eftir þeim sem nota tæknina í fleira en einungis að grafa eftir rafmyntum. Þau fyrirtæki eru ekki jafn viðkvæm fyrir sveiflum á gengi myntanna en nokkuð hefur verið um lukkuriddara í þessum bransa sem ekki geta staðið af sér sveiflur á markaði.

Allt í allt eru um 70 fyrirtæki sem byggja á blockchain í viðskiptum við ADC. Eðli málsins samkvæmt eru mörg fyrirtækjanna frá Evrópu en nú eru að bætast við viðskiptavinir frá Asíu og Bandaríkjunum líka. Kínverjar eru frægir fyrir sína hlutdeild í Bitcoin en Japanir nota rafmyntina einna mest. Evrópa er því ekkert sérstaklega framsækin í þessum efnum.

Í öðru lagi er hið hefðbundna high-performance computing (HPC) eða rekstur ofurtölva, þar sem viðskiptavinir kaupa í rauninni reikniafl. Við erum eitt fremsta fyrirtækið í heiminum þegar kemur að ofurtölvu-skýjaþjónustu. Við erum með nokkuð marga stóra alþjóðlega viðskiptavini og það er mannafls¬frekasti þátturinn í okkar starfsemi. Þar sjáum við fyrir okkur mikla vaxtarmöguleika. Við höfum til dæmis verið að vinna að verkefnum með læknadeild Stanford-háskóla og fleirum. Þessi hluti starfseminnar krefst talsverðrar orku en þarf litla bandvídd. Hann hentar okkur því mjög vel, auk þess sem íslenskar veðuraðstæður eru mjög hentugar þar sem kuldinn nýtist til að kæla tölvubúnaðinn. Það eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast í þessum ofurtölvuheimi en mikill vöxtur er á notkun þeirra í hönnun, þróun og rannsóknum.

Nýjustu afkastamælingar okkar sýna að ofurtölvurnar ná 6-7 prósentum meiri afköstum en sams konar búnaður annars staðar í heiminum. Það er hægt að ná sama árangri annars staðar en þá þarf sérstakan búnað til að stilla raka og hita, sem leiðir til aukins kostnaðar,“ segir Eyjólfur og bætir við að þriðja og síðasta stoðin sé hefðbundin hýsingarþjónusta.

Viðtalið við Eyjólf Magnús má lesa í heild sinni hér.


Fleiri fréttir

Blogg
13.11.2025
Dell hefur kynnt nýjar fartölvulínur sem eru hannaðar til að mæta ólíkum þörfum á vinnustöðum. Til að einfalda valið eru þrír meginflokkar: Dell Pro, Dell Pro Premium og Dell Pro Max. Hver lína er sérsniðin að mismunandi hlutverkum innan fyrirtækja, og hjálpar starfsfólkinu að vera Pro í sinni vinnu.
Fréttir
12.11.2025
Í kvöld var tilkynnt að Microsoft hefur valið Advania sem samstarfsaðila ársins á Íslandi árið 2025 (e. Partner of the Year). Þessi viðurkenning undirstrikar einstaka þekkingu og færni Microsoft sérfræðinga Advania.
Fréttir
01.11.2025
Það var gleðistund þegar Advania afhenti Vísindagörðum fyrstu NVIDIA DGX Spark ofurtölvuna. Mikil eftirvænting hefur ríkt hér á landi enda er um að ræða nýjustu og minnstu ofurtölvu tæknirisans NVIDIA, sannkallaða byltingu í gervigreindarvinnslu.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.