06.04.2022

Vefir eru andlit fyrirtækja

Marín Jónsdóttir, vörustjóri vefumsjónakerfa Advania, skrifar;

Það eru ekki mörg ár síðan fyrirtæki og stofnanir voru í kappi við það eitt að koma upp vefsíðum fyrir sinn rekstur. Sú vinna snerist þá einfaldlega um að koma vef í loftið því eins og oft heyrist, ef þú ert ekki sýnilegur á vefnum, þá ertu ekki til.

Hraðar tækniframfarir hafa valdið því að vefir eru fljótir að úreldast. Tilgangurinn með þessum skrifum er að vekja lesendur til umhugsunar hvort vefurinn þeirra sé mögulega kominn á tíma. Í dag er nefnilega ekki nóg að vera „bara til“ á vefnum. Vefurinn þarf að hafa tilgang. Hættum að nota vefina okkar sem stafrænt nafnspjald og látum vefina vinna fyrir okkur í staðinn. Hvernig förum við að því?

1. Sjálfsafgreiðsla

Krafa neytenda er að fá afgreiðslu tafarlaust. Þeir vilja hafa möguleikann á því að geta sjálfir nálgast upplýsingar á vefnum þínum og ef upplýsingarnar eru illa aðgengilegar þá eru þeir ekki lengi að leita annað. Við rýni á núverandi vef eða hönnun á nýjum vef þá er mikilvægt að hafa sjálfsafgreiðslu notenda í huga. Hvar og hvernig nálgast þeir upplýsingar um þinn rekstur? Þurfa þeir að fikra sig gegnum langt veftré og efnismiklar undirsíður? Eða býður þú upp á öfluga leit til að stytta þeim sporin? Eða jafnvel spjallmenni til að svara helstu spurningum um þinn rekstur? Ertu með úthugsaðar flýtileiðir á forsíðunni? Með aðgengilegum upplýsingum og vel uppsettum vef eykur þú einnig líkurnar á endurkomu viðskiptavina þinna.

2. Fyrstu kynni og endurkoma

Hvernig er fyrsta upplifun viðskiptavina? Það mætti segja að vefsíður séu andlit fyrirtækisins. Hvernig lítur fyrirtækið þitt út á vefnum? Hefurðu sett þig í spor viðskiptavina þinna og skoðað vefinn þinn með þeirra augum? Hvað blasir við þeim? Hér leikur góð hönnun á vef lykilhlutverk í að gera upplifun viðskiptavina jákvæða. Vefurinn þarf að vera aðlaðandi og minnistæður en útlit er ekki allt. Til þess að vefsíða sé vel hönnuð er mikilvægt að byrja á byrjuninni. Hver er tilgangurinn með vefnum og hvernig skapar hann þínum rekstri virði?

3. Ertu með tilgang?

Það er mikilvægt að gera hluti ekki „af því bara“ heldur frekar setjast niður og hugsa „af hverju“. Af hverju búum við til vefi? Tilgangurinn getur verið misjafn eftir rekstri hvers fyrirtækis eða stofnunar en það er mikilvægt að átta sig á honum svo vefurinn sé hannaður með tilganginn að leiðarljósi. Er tilgangurinn að fá gesti vefsíðunnar til að bóka tíma á vefnum? Er tilgangurinn að selja vörur í vefverslun eða fá viðskiptavini til að mæta í verslunina þína? Er tilgangurinn að veita upplýsingar til að minnka álagið á þjónustuverinu þínu? Þessi forvinna hljómar kannski augljós, en það er oft litið fram hjá þessu skrefi. Finnum tilganginn, setjum okkur markmið og vörðum leiðina þangað.

4. Leitarvélabestun

Förum aftur að fullyrðingunni um að „ef þú ert ekki sýnilegur á vefnum, þá ertu ekki til“. Ef vefsíðan þín birtist á síðu þrjú á Google þegar notendur leita að orðum tengdum rekstrinum þínum, þá ertu svo gott sem ekki til. Með því að hanna vefinn þinn með leitarvélabestun í huga, þá tryggir þú að vefurinn þinn birtist ofar í leitarniðurstöðum fólks.

5. Gagnadrifnar ákvarðanir

Eins mikilvægt og það er að finna tilgang vefsins og hanna hann út frá notandanum þá er enn mikilvægara að hlusta á raunverulega viðskiptavini. Greiningartól á borð við Google Analytics aðstoða þig við að skilja viðskiptavini þína enn betur. Tólið sýnir þér meðal annars fjölda gesta, heimsókna, flettinga og hvaðan gestirnir eru að koma. Annað greiningartól sem getur aðstoðað við að taka gagnadrifnar ákvarðanir er Siteimprove. Það greinir vefinn „bakvið tjöldin“ og reiknar út heilbrigðisstuðul á gæðum gagna á vefnum, leitarvélabestun, aðgengismálum og fleiru. Út frá þessum greiningum frá t.d. Google Analytics og Siteimprove lærum við að skilja betur hvernig vefurinn þjónar notendum og hver upplifun notenda er. Verum Agile í hönnun á vefum, tökum gagnadrifnar ákvarðanir og bætum vefina okkar sífellt í takt við notkun og afköst vefsins.

Ég hvet þig til að hafa þessi atriði í huga við rýni á núverandi vef eða hönnun á nýjum vef. Ein spurning nær í raun yfir þær allar hér að ofan: er vefurinn þinn örugglega að vinna fyrir þig?

Sjáðu upptökuna: "Láttu vefinn vinna fyrir þig"

Efnisveita

Mímir leitaði til Advania með það verkefni að gera fjarkennslu og fjarfundi starfsfólks einfaldari. Val á búnaði, rétt uppsetning og góð þjónusta skiptir lykilmáli.
Það skiptir máli hvaða tölvubúnaður er valinn og því ætti val á búnaði að vera liður í sjálfbærnivegferð fyrirtækja. Hér eru nokkrar leiðir til að meta hve umhverfisvæn tölvan þín er.
Advania-samsteypan hefur fest kaup á norska upplýsingatæknifyrirtækinu eXspend. Fyrirtækin hafa unnið náið saman undanfarin ár en sameinast nú undir nafni Advania.
Advania kaupir breskt fyrirtæki; fjöldi Microsoft Dynamics sérfræðinga fjórfaldast.
Yealink MeetingBoard – er gagnvirkur teikniskjár með fjarfundarbúnaði fyrir Microsoft Teams.
Hefur þú litið í spegil nýlega? Hefurðu sett þig í spor viðskiptavina þinna og skoðað vefinn þinn með þeirra augum? Hvað blasir við þeim?