Blogg - 18.03.2021

Að velja sér vinnuumhverfi

Sveigjanleiki og valfrelsi starfsfólks er lykilatriði. Fólk ætti að geta valið dag frá degi hvort það nýti sér þá aðstöðu sem vinnustaðurinn býður uppá eða leiti heim, á kaffihúsið eða í hverja þá aðstöðu sem hentar verkefnunum hverju sinni.


Sigrún Ósk Jakobsdóttir mannauðsstjóri Advania skrifar:

 

Síðustu vikurnar hefur fjarvinna mikið verið í umræðunni. Umræðan hefur reyndar verið frekar áberandi í að verða ár en undanfarið hefur hún snúist um það hvernig fyrirtæki ætla að nýta sér þessa reynslu inn í framtíðina.

 

Framtíðarspámenn og aðrir áhugamenn um stjórnun, mannauðsmál og vinnuumhverfi hafa lengi bent á að að fjarvinna verði ríkjandi á næstu árum. Enginn bjóst þó við að það gerðist svona hratt og í raun gengum við í gegnum margra ára þróun á aðeins einu ári. 


Nú þegar það hefur sýnt sig að fjarvinnan virkar, er áhugavert að velta því upp hvað gerist þegar allir hafa verið bólusettir, knúsast má að vild og við getum aftur komið saman á vinnustöðum landsins. 

Það kom okkur hjá Advania lítið á óvart að fjarvinna virkaði svona vel enda höfum við lengi lagt áherslu á sveigjanleika í starfi. Í starfsmannahópi okkar eru þónokkrir sem vinna á litlum skrifstofum vítt og breytt um landið, ýmist einir eða í litlum hópum. Einnig starfa hjá okkur einstaklingar sem búa erlendis og vinna allan ársins hring fjarri höfuðstöðvunum. 


Nýlega birti Bandalag háskólamanna (BHM) niðurstöður rannsóknar sem þau gerðu meðal sinna félagsmanna. Þar segja 62% svarenda að þeir nái betri einbeitingu þegar unnið er heima. Þetta kemur ekki á óvart þar sem í flestum skrifstofuhúsnæðum nú til dags vinna margir í sama rými og því ekki alltaf hægt að ganga að vinnufrið vísum. Aðspurðir um hvort þeir vilji áfram sinna vinnunni að einhverju leiti heima, svara 81% félagsmanna því játandi. 


Víða um heim hafa fyrirtæki komist að sömu niðurstöðu. Hjá Slack kýs til að mynda 72% starfsfólks að vinna að hluta til heima að heimsfaraldri loknum og 75% starfsfólks hjá IBM segja það sama. Starfsfólk Advania er einnig á sama máli. Í könnun sem lögð var fyrir síðastliðið haust sögðu 90% starfsfólks Advania að það vilji vinna að minnsta kosti einn dag í viku í fjarvinnu.


Það eru ekki bara nýlegar rannsóknir sem sýna ávinninginn af breytilegu eða sveigjanlegu vinnuumhverfi. Rannsóknir á vinnuumhverfi hafa verið gerðar í áraraðir og virðist almennt samhljómur um að til að leysa verkefni sem krefjast mikillar einbeitingar, þyki fólki best að fá algjöran vinnufrið og þögn. Önnur verkefni eru best unnin í mikilli samvinnu og fæst þá mesti ávinningurinn af því að vera í rými með öðru samstarfsfólki. Enn önnur verkefni reyna á sköpun þar sem litir, umhverfishljóð eða nýtt umhverfi geta reynst hvað best. 


Í nýlegri umfjöllun BBC um fjarvinnu og sveigjanleika í sköpunarverkefnum er fjallað um það sem kallast kaffihúsaáhrifin. Á kaffihúsum er jafnan passlegur kliður, tónlist og örvun, bæði hljóðræn og sjónræn, til að hámarka sköpunarhæfni. 


Veltum aftur upp spurningunni um hvernig fyrirtæki geti nýtt reynslu síðasta árs í framtíðinni. Ekki má gleyma því að auðvitað eru fleiri möguleikar en þessir tveir sem hafa verið hvað mest í umræðunni, að vinna heima eða að vinna á skrifstofunni. 


Vinnuumhverfi framtíðarinnar verður að vera bæði einstaklings- og verkefnamiðað og bjóða uppá sveigjanleika og fjölbreytileika. Það er á ábyrgð okkar mannauðsfólks og stjórnenda fyrirtækja að skapa nýtt norm þar sem fólk fær félagsskap við samvinnuverkefni og hugmyndavinnu en getur farið í kliðinn á kaffihúsi til að sækja innblástur. Möguleikinn á lokuðu og hljóðlátu rými ætti einnig að vera fyrir hendi þegar virkilega þarf að einbeita sér. Hvort allir möguleikarnir eru fyrir hendi á skrifstofunni getur verið aukaatriði. 


Vissulega hefur starfsfólk misgóða aðstöðu heima fyrir og kaffihúsið í hverfinu hentar ekki öllum. Vinnustaður framtíðarinnar ætti því að bjóða uppá á svipaðan fjölbreytileika í vinnuaðstöðu til að mæta ólíkum einstaklingum, fjölbreyttum verkefnum og mismunandi þörfum. Starfsfólk hefði aðgang að lokuðum rýmum þar sem vinnufriður er ríkjandi, kaffihúsastemmingu með tilheyrandi litadýrð, klið og umhverfishljóðum, góðum fundarherbergjum og samvinnuaðstöðu. Síðast en ekki síst er mikilvægt að starfsfólk hafi tækni og búnað sem styður samvinnu þvert á landið eða yfir hafið. 

Efnisveita

Hingað til hefur þótt bæði dýrt og tímafrekt að skipta yfir í nýtt bókhaldskerfi en sú er ekki lengur raunin.
Advania hlaut á dögunum verðlaun frá DynamicWeb fyrir að sameina fimm vefverslanir S4S og færa í svokallaðan hauslausan strúktúr. Verkefnið var valið besta veflausn ársins á heimsvísu en um 600 tilnefningar bárust frá samstarfsaðilum DynamicWeb. Lausnin  hefur fært S4S margvíslegan ávinning.
Frá og með 23. september tekur gildi ný gjaldskrá Advania sem felur í sér einföldun á útseldum töxtum hjá félaginu.
Mikið hefur farið fyrir umræðu um svokallaða headless vefþróun undanfarið. Hér verður fjallað um þetta hauslausa fyrirbæri, hvað það þýði og af hverju það er sniðugt.
Haustboðinn ljúfi, Haustráðstefna Advania hefst á fimmtudaginn klukkan níu. Það er því ekki úr vegi að fara yfir ráð sem gott er að hafa í huga til að fá sem mest úr ráðstefnunni.
Ekki láta stærstu tækniráðstefnu landsins fram hjá þér fara.