23.5.2012 | Blogg

Brottfall og aðrir vefmælikvarðar

advania colors line

Síðustu ár hefur hugbúnaður á borð við Google Analytics og önnur forrit sem mæla umferð um vefsvæði tekið miklum stakkaskiptum. Nú er svo komið að grafísk framsetning og nýjar mæliaðferðir geta sýnt eiganda vefsvæðis hversu margir eru á ferðinni í rauntíma inni á vef hans og hver viðbrögð þeirra eru við ólíkri framsetningu efnis. 

Þetta skapar fjölmörg tækifæri fyrir eigendur vefja en á sama tíma er ekki alltaf heiglum hent að vita hvaða þýðingu ólíkir mælikvarðar hafa. Hér langar mig að staldra við einn þeirra, hið svo nefnda „bounce rate“ eða brottfall eins og hægt væri að kalla það á íslensku. Brottfall er í grunninn nokkuð skýrt afmarkaður mælikvarði. Talinn er fjöldi þeirra gesta sem hverfa frá vefsvæðinu án þess að hafa skoðað aðra síðu en þá einu síðu sem þeir komu inn á og hlutfall þeirra reiknað út frá gestakomum á vefinn í heild sinni. Þannig má hugsa sér að brottfall sé eins konar gæðamælikvarði fyrir vefsvæðið. Ef margir hverfa frá vefnum án þess að skoða aðrar síður en þessa einu síðu má ætla að vefsvæðið sé ekki nægilega spennandi til þess að halda notendum við efnið öfugt við lesendur góðrar spennusögu sem geta ekki annað en flett bókinni þar til henni lýkur. 

Aðrir mælikvarðar teknir með í dæmið

En ekki er allt sem sýnist. Varasamt er að skoða þennan eina mælikvarða í lofttæmi án þess að huga að samhenginu og án þess að huga að öðrum mælikvörðum á sama tíma sem geta varpað ljósi á málið. Spurningar sem gætu kviknað eru til dæmis þessar:

  • Finna notendur hugsanlega allt það sem þeir þurfa að finna inni á þeirri síðu sem þeir komu inn á? Hér getur tímalengd heimsóknar hjálpað. Ef notendur dvelja í langan tíma á síðunni bendir það til þess að þeir finni þar eitthvað bitastætt.

  • Er stór hluti gesta vefsíðunnar þar staddur fyrir misskilning? Hér gætu þau leitarorð sem leiddu gesti inn á síðuna verið lík leitarorðum annars vefsvæðis sem gestir hugðust heimsækja. Í því tilviki væri gott að skoða vel yfirlit sem Google analytics gefur yfir leitarorð. Einnig gæti þetta bent til þess að vefauglýsingar eða annað það efni sem dregið hefur gesti inn á vefsvæðið séu villandi. Auk þess gæti það gagnast að skoða grafískt yfirlit yfir uppruna gesta á heimskorti til þess að ganga úr skugga um að gestirnir séu af því markaðssvæði sem horft er til.

  • Er hugsanlega eitthvað í framsetningu efnis á síðunni sem fælir notendur frá? Hér mætti til að mynda hugsa sér að gestir hiki við að smella á aðrar síður þar sem það mundi fela í sér einhvers konar skuldbindingu, ákvörðun um kaup eða annað í þeim dúr. Eða ekki sé gefið nægilega vel til kynna hvers konar efni liggi á öðrum síðum.

Hvað er ásættanlegt brottfall?

En hversu hátt er meðal brottfall á netinu? Af yfir 20 vefsvæðum sem ég hafði tækifæri til að kynna mér meðal viðskiptavina veflausna Advania var meðal brottfallið um 44%. Ef leitað er heimilda utan úr heimi þá er algengt að sjá tölur á bilinu frá 40% og upp í 50% nefndar sem meðal brottfallshlutfall vefsvæða og því virðast þessar tölur í samræmi við það. Mjög hátt brottfall um 70-80% gæti þó verið vísbending um að eitthvað þyrfti að endurskoða í framsetningu efnis á vefsvæðinu, eins væri ástæða til að staldra við ef mjög snöggar breytingar verða á tölunum yfir tíma. En hér gildir sem oft áður að nauðsynlegt er að kunna að lesa á milli línanna og varsamt er að trúa blint á bókstafinn, brottfallið eitt og sér segir ekki alla söguna. 

Hafa samband
Ef þú hefur áhuga á því að fá að vita meira um brottfall eða vefmælingar smelltu þá tölvupósti á hann Þorfinn. Hann veit mikið um þessi mál og hefði bara gaman að því að fá póst frá þér.
 

TIL BAKA Í EFNISVEITU