22.8.2012 | Blogg

Er nettengingin ekki örugglega í lagi?

advania colors line
Nú til dags eru nánast öll fyrirtæki háð því að hafa nettengingu sína í lagi en menn leiða sjaldnast hugann að því hvað gerist í raun og veru ef netsambandið rofnar óvænt á háannatíma?

Minniháttar vandræði

Mörg fyrirtæki hafa brennt sig á því að hafa vanrækt öryggi nettenginga. Í mörgum tilfellum hefur truflun á netsambandi aðeins takmörkuð áhrif og það má kippa málum í lag með því að hafa samband við þjónustuaðila. En stundum veldur netsambandsleysi því að starfsemi stöðvast eða það hægist verulega á henni. Truflun eða rof á netsambandi getur þýtt töpuð viðskipti og glataðar tekjur.

„Þetta er bara Internetsambandið“

Mikil breyting hefur orðið á notkun Internetsins hjá íslenskum fyrirtækjum frá því að það var „bara“ notað fyrir tölvupóst og að skoða vefsíður. Nú nýta fyrirtæki sér tölvuský og ótal aðrar þjónustur yfir Internetið. Tölvupósturinn er orðinn ómissandi samskiptatæki og greiðslumiðlun færist í vaxandi mæli yfir á Internetið. Er það kannski þannig að verslunin þín hættir að geta tekið á móti kortagreiðslum þegar Internettengingin fer niður?

Hvað hangir á spýtunni?

Fyrirtæki nýta nettengingar vissulega með ólíkum hætti. Með nettengingu er átt við hefðbundnar Internettengingar sem og aðrar einkanetstengingar, til dæmis á milli starfsstöðva eða til hýsingaraðila. Hér eru nokkur dæmi um not á nettengingum:
 • Tölvupóstur og önnur samskiptatól, svo sem Microsoft Lync.
 • Símkerfi fyrirtækisins, hvort sem það er hýst símkerfi eða tengist almenna símkerfinu yfir net í stað hefðbundinna símalína.
 • Samfélagsmiðlarnir, þar sem fyrirtækið þitt er að auka vægi sitt.
 • Bókhaldskerfið, hvort sem er sérhæft netbókhaldskerfi eða bókhaldskerfi hjá hýsingaraðila.
 • Hýsing á eigin kerfum sem samstarfsaðilar eða viðskiptavinir nýta, sem og aðgangur fyrir þitt fyrirtæki til samstarfsaðila og birgja.
 • Hýsing á vefsetri og vefverslun.
 • Skjalavistun og fleira hjá hýsingaraðila eða í tölvuskýi, til dæmis Microsoft Office 365 eða Google Docs.

Margt getur farið úrskeiðis


Hér á landi búum við reyndar blessunarlega við þær aðstæður að bilanir eru fátíðar. Þetta kann að skýra að hluta andavaraleysi gagnvart forvörnum.  Það eru margir þættir í netsambandinu sem eru útsettir fyrir óvæntum uppákomum. Nettengingar eru í raun ein samfelld keðja frá endanotanda og út á netið; endabúnaður, innanhússtengingar, heimtaug frá símstöð, búnaður þjónustuaðila í símstöð, flutningsnet þjónustuaðila og mögulega endursöluaðila eða annars þjónustuaðila, og svo sjálfar internettengingar þess aðila. 

Mismunandi hættur ógna uppitíma þessara þátta:
 • Búnaður: Vélbúnaðurinn sjálfur eða spennugjafi fyrir hann, aflfæðing (flökt á rafmagni eða rafmagnsleysi), mannleg mistök við stillingar. Er netþjónninn sem hýsir gögnin þín tengdur við varaaflgjafa (UPS)? En hvað með netbúnað (leiðargreina og beina) er hann í góðu standi og tengdur við varaaflgjafa?
 • Tengingar: Mannleg mistök við tengingar eða slit á jarðstrengjum, t.d. vegna framkvæmda í jörðu.
Viðgerðartími er mismunandi eftir eðli vandamálsins:
 • Rangar stillingar má hugsanlega laga á nokkrum mínútum.
 • Það getur tekið allt upp í nokkrar klukkustundir að lagfæra rangar tengingar.
 • Skemmdar lagnir í jörðu tekur gjarnan 4-8 klukkustundir að laga, jafnvel meira. 
 • Útskipting á búnaði hjá viðskiptavini (og það sem ekki er síður er mikilvægt, endurinnsetning á réttum stillingum) getur tekið klukkustundir upp í nokkra daga. Þetta veltur á því hvort búnaður er tiltækur og hversu flókinn hann er. 

Ekki er ætlunin að mála of dökka mynd því sem fyrr segir þá erum við hér á klakanum í betri málum en margar aðrar þjóðir. Hér eru bilanir tiltölulega fátíðar og viðbragðstími góður. En hafa verður í huga að kröfur notenda aukast stöðugt og vítin eru til að varast þau.

Hvernig er staðan hjá þér?

Ef til vill er staðan hjá þínu fyrirtæki eins og hún var hjá flestum fyrir nokkrum árum ef nettenging rofnar; smá óþægindi kæmu upp ef tölvupósturinn hætti að berast, enginn heimsækir fréttavefi eða Facebook, nema ef vera kynni í spjaldtölvunni eða farsímanum.  Starfsemin heldur áfram sinn vanagang.

Það eru samt auknar líkur á að afleiðingar af rofi á nettengingu hafi alvarlegri afleiðingar. Það skyldi þó ekki vera að síminn þagni hjá starfsfólki í móttökunni og ekki verði lengur hægt að svara athugasemdum á Facebook síðu eða vefsetri fyrirtækisins, úr verslunni heyrist „því miður get ég bara tekið við peningum“, og enginn á skrifstofunni hefur aðgang að skjölum, kerfum eða gögnum.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir og hjáleiðir í boði

Til eru ráð gegn flestum ef ekki öllum þessum ógnum. Mótvægisaðgerðir kosta sitt og því þarf að vega og meta kostnað og ávinning á móti skaða og líkum á vandamálum, til dæmis í samráði við þjónustuaðila hverju sinni. Eftirtaldar varúðarráðstafanir geta skipt sköpum fyrir reksturinn þegar og ef truflun eða rof verður á nettengingu:

 • Hugaðu að posum í verslunum og símum starfsmanna. Hægt er að setja kerfin upp þannig að þau nýti farsímasamband ef venjuleg símtenging virkar ekki.  
 • Hafðu 3G nettengingu í tölvum á vinnustaðnum.
 • Hægt er að hafa varaleið yfir 3G til taks fyrir allt fyrirtækið.
 • Sum fyrirtæki ættu að vera með tvöfaldan búnað og tengingar frá sitt hvoru fjarskiptafyrirtækinu.

Að lokum


Ekki dugar að skoða nettengingar fyrirtækisins einu sinni og ganga svo út frá því að allt virki þegar á reynir. Mikilvægt er að einhver beri ábyrgð á því að varaleiðir og varabúnaður virki sem skyldi. Reglulegar prófanir og skipulagðar viðbragðsáætlanir skipta hér öllu máli. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU