23.1.2013 | Blogg

Við köllum hana heimili upplýsingatækninnar

advania colors line

Fyrir nokkrum mánuðum stóðum við frammi fyrir því verkefni að opna verslun Advania í nýjum höfuðstöðvum okkar við Guðrúnartún. Þetta er ekki í frásögu færandi þar sem ný verslun opnar sjálfsagt vikulega hér á landi – ef ekki oftar... og þó?

Eitthvað nýtt og spennandi

Þessi verslun átti ekki að vera hefðbundin. Við vildum reyna nýja leið og gekk hugmyndafræðin út á að skapa heimili fyrir Advania. Við höfðum úr um 340 m2 að moða – tóman geim á 1. hæð sem var ósköp venjulegur nema hvað að útsýnið er magnað, allt það fegursta sem sjá má frá höfuðborginni: Esjan, Skarðsheiði og Akrafjallið, Snæfellsjökull í allri sinni dýrð og auðvitað Harpa. Ekki oft sem slíkt er fyrir hendi á neðstu hæð í stóru fyrirtæki.

Verkefnið var ögrandi og takmarkið var að leysa það með einfaldri en um leið snjallri hönnun. Og þá var ekkert að vanbúnaði að byrja.

Í upphafi skal endinn skoða

Við hófumst handa við að setja niður fyrir okkur hvernig verslun við vildum skapa. Við vildum alls ekki opna dæmigerða tölvubúð. Þær eru jú allar eins. En svo var líka hitt – þetta átti ekki aðeins að vera verslun heldur líka móttaka, sýningarsvæði, fundarstaður og kaffihús allt á einum stað, rými sem blandar saman gestum og starfsmönnum á þægilegan máta.

Nokkur grundvallaratriði voru höfð að leiðarljósi frá upphafi:
 • Nýja verslunin á að vera hjartað í starfsemi Advania á Íslandi
 • Verslunin spannar helstu þarfir atvinnulífsins í upplýsingatækni
 • Gestir geti upplifað sérstöðu fyrirtækisins og rætt við ráðgjafa og aðra sérfræðinga um lausnir og vörur sem boðið er uppá
 • Andlit Advania, nútímaleg og sjálfvirk gestamóttaka 
 • Orkuríkt og skapandi andrúmsloft sem endurspeglar líflegan vinnustað 
 • Svæðisskipting miðað við þarfir markhópa, hvert svæði býður upp á sína upplifun og sérstöðu í litum og efnisvali
 • Lifandi umhverfi sem auðvelt er að færa til og breyta
 • Besti kaffibollinn í húsinu og þó víðar væri leitað

Síðast en ekki síst vildum búa til spennandi en jafnframt vinalegt heimili upplýsingatækninnar.

Formin í vörumerkinu í aðalhlutverki

Við fengum til liðs við okkur arkitektinn Frey Frostason sem getið hefur gott orð á sér m.a. fyrir hönnun á Marina hóteli, Slippbarnum, og Geysir shop. Hann hefur ásamt sínu fólki á THG arkitektar, hlotið lof fyrir þessi verkefni. Freyr lagði til að við tækjum formin í vörumerkinu okkar með inn í hönnunina þannig að allt í versluninni, hvert sem litið væri, minnti á Advania. Hann kom einnig með þá tillögu að gólfin yrðu flotuð og merkið okkar fræst í gólfið á nokkrum stöðum.

Markhópaskipt svæði

Verslunin er svæðaskipt með afgerandi hætti í lita og efnisvali, þar sem svæðin eru ýmist teppalögð í hólf og gólf eða gólfdúkar fá að flæða upp á veggi og loft. Hvert svæði er tengt vöruúrvali Advania og er skiptingin eftirfarandi:
 • Nýjasta nýtt – grænt svæði
 • Verslunartæki og afgreiðslulausnir – blátt svæði
 • Lausnir fyrir einstaklinga, heimili og einyrkja – gult svæði
 • Lausnir fyrir meðalstór og stór fyrirtæki – rautt svæði

Allt er þetta svo tengt við kaffihúsið sem er einnig móttökurými, en það teygir sig inn eftir rýminu og gefur tækifæri á að setjast niður í rólegheitunum með kaffibolla og ræða vörur og lausnir Advania.
Te & Kaffi starfrækir kaffihúsið, sem nú þegar er vel sótt auk þess sem starfsfólk var fljótt að kveikja á perunni varðandi það hversu frábær fundarstaður verslunin er. 

Það er heilmikið fyrirtæki að vera manneskja

Við vildum nota tækifærið og sýna í verki hugmyndafræðina á bak við Advania vörumerkið. Útkoman er spennandi stefnumót hönnunar og vörumerkis.  Það var því ekki leiðinlegt þegar viðskiptavinur lét eftirfarandi orð falla eftir að hafa skoðað verslunina „Mér finnst eins og ég sé komin inn í vörumerkið ykkar“. Draumur markaðsstjórans að heyra þessi orð :)

Svæðamerkingar veita innblástur

Við ákváðum að merkja svæðin ekki með hefðbundnum hætti heldur nota aðra nálgun. Það má því segja að punkturinn yfir i-ið séu myndirnar á veggjunum þar sem tilvitnunum nokkurra merkismanna eru gerð skil á listrænan hátt. Hér er um að ræða þau Bríeti Bjarnhéðinsdóttur – „Við göngum glaðar in í framtíðina“,  Steinn Steinarr – „Kaffihúsin eru minn háskóli“ og Jóhannes Kjarval – „Það er heilmikið fyrirtæki að vera manneskja“.

Myndirnar eru teiknaðar upp í „griddi“ Advania og skornar út í sama efni sem notað er á veggjum, gólfum og loftum. Heildarsamsetningin myndar síðan lágmynd af hetjunum, sem gerir þessa útfærslu að listaverki. Hugmyndina að myndunum á Gunnar Þór Arnarson, hönnuður hjá Hvíta húsinu og höfundur Advania vörumerkisins.

Vertu velkomin(n)!

Umfram allt á verslun Advania að vera lifandi vettvangur þeirra sem lifa og hrærast í upplýsingatækninni. Okkur til mikillar ánægju lítur út fyrir að við munum ná því markmiði þrátt fyrir að við séum nýbúin að opna og margar hugmyndir bíði þess að þeim sé hrint í framkvæmd. Að lokum vil ég skora á þig að kíkja í heimsókn og sjá hvort við heillum þig ekki upp úr skónum.

Við hlökkum til að sjá þig!

TIL BAKA Í EFNISVEITU