11.6.2013 | Blogg

Rafrænar kosningar, hvers ber að gæta?

advania colors line
Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem nota Internetið hvað mest en þrátt fyrir það þá kjósum við langoftast með „gamla laginu“. Margir telja að beita megi Internetinu til að auka þátt almennings í ákvörðunartöku hjá hinu opinbera. En hvers ber að gæta við undirbúning og framkvæmd rafrænna kosninga?
 

Öryggisstig er breytilegt eftir kosningum

Kosningar í gegnum Netið hafa þegar sannað sig bæði hér á landi og erlendis. Það skiptir auðvitað máli hvers eðlis kosningarnar eru. Það þarf annað öryggisstig við kosningu í félag, íbúakosningu eða kosningar til sveitastjórna eða til Alþingis. Eins og gefur að skilja eykst sönnunarbyrði hvað varðar auðkenningu kjósenda og öryggiskröfur til kerfis sem notað er eftir því sem kosningar eru mikilvægari.

 

Auðkenning er í góðu lagi

Auðkenning kjósanda er mikilvægur þáttur í öryggismálum rafrænna kosninga. Þar eru nokkrir kostir í boði. Nefna má rafræn skilríki en hér á landi reiknast mönnum til að um 300.000 skilríki hafi verið dreift til um 220.000 Íslendinga með afhendingu greiðslukorta. Þessi skilríki uppfylla hámarkskröfur til auðkenningar. Við einfaldar íbúakosningar mætti nota auðkennislykla og Íslykil Þjóðskrár sem er ný innskráningarleið hjá Þjóðskrá Íslands.
 

Mikil reynsla er komin á framkvæmd rafrænna kosninga

Auðkenningin er sem sagt í góðu lagi en við þurfum að huga að öruggu kerfi sem hindrar að hægt sé að svindla í rafrænum kosningum og tryggir að tæknileg virkni sé eins og bestur verður á kosið. Mikil reynsla er komin á rafrænar kosningar í nokkrum löndum í kringum okkur. Almennt hefur reynslan af kosningum yfir Internetið verið góð meðan reynslan af notkun sérstakra kosningavéla á kjörstöðum hefur ekki verið eins góð og sums staðar er meira að segja bannað að nota slíkar vélar í kosningum.
 

Vel heppnaðar rafrænar kosningar víða um lönd

Kosningar í gengum Internetið sem hafa farið fram í  Noregi, Eistlandi, Kanada og í fleiri löndum hafa gengið vel. Til dæmis má nefna að árið 2011 var kosið í gegnum Internetið í sveitastjórnarkosningum í Noregi í 10 sveitarfélögum. Við Íslendingar getum lært mikið af þeiri framkvæmd. Ennfremur má læra mikið af íbúakosningum í Reykjavík, Betri Reykjavík. Það verkefni hefur lukkast vel og hefur gefið borgarbúum, kjörnum fulltrúum og embættismönnum borgarinnar færi á að læra á rafrænt fyrirkomulag við kosningar og aðkomu almennings að ákvörðunartöku hins opinbera. Í Noregi og Eistlandi hefur gefist vel að útfæra rafrænar kosningar sem utankjörstaðakosningu. Þannig hófst kosning í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Noregi  30 dögum fyrir kjördag og lauk tveimur dögum fyrir kjördag. Menn gátu kosið rafrænt eins oft og þeir vildu og gilti þá seinasta atkvæðið. 

Hverjir kjósa helst rafrænt?

Að síðustu má spyrja spurningarinnar hverjir nýta rafrænar kosningar? Reynslan sýnir að það er helst fólk á miðjum aldri í tímaþröng sem nýtir sér rafrænar kosningar.  Það er því ekki endilega yngstu kjósendurnir sem stökkva á rafræna kosningavagninn heldur er þetta þægindaauki fyrir upptekið fólk.
 
TIL BAKA Í EFNISVEITU