10.12.2013 | Blogg

Nýtt NAV – nýjar leikreglur

advania colors line
Microsoft leggur nú áherslu á að fyrirtæki geti uppfært Microsoft Dynamics NAV hratt og örugglega. Þetta gerir Microsoft með því að bjóða uppá nýjar útgáfur örar en áður og minnka þar með átakið sem oft fylgir því að uppfæra lausnina.

Árlegar uppfærslur héðan í frá

Í október 2012 gaf Microsoft út Dynamics NAV 2013 en við á Íslandi máttum þó bíða til 1. maí 2013 eftir íslensku útgáfunni. Í október s.l. gaf Microsoft síðan út Dynamics NAV 2013 R2 samtímis á öllum tuttugu markaðssvæðum sínum.  Þar með náði Microsoft markmiði sínu um að gefa út nýja útgáfu af NAV á hverju ári. Næsta útgáfa af NAV er væntanleg í október 2014.

Mikil reynsla komin á uppfærslur

Ég hef uppfært nokkur fyrirtæki úr eldri útgáfum af NAV í 2013 í sumar og haust.  Uppfærsla á þessum fyrirtækjum í NAV 2013 R2 var tiltölulega auðveld.  Þetta er hins vegar ekki sjálfgefið.  Ef vel á að vera þarf að fylgja nýjum leikreglum í meðhöndlun kerfisins og hvernig við bætum við það þeirri virkni sem nauðsynleg er fyrir rekstur fyrirtækja. 

Stöðluð aðferðarfræði skilar miklu

Árið 2011 varð til, af frumkvæði þriggja manna, hreyfing sem nefnist Partner Ready Software. Markmiðið var að viðbætur og lausnir fyrir Dynamics NAV verði þannig að þjónustuaðili eigi auðvelt með að skilja lausnina, viðhalda henni og uppfæra.

Töluvert hefur gerst síðan verkefnið hófst og núna höfum við í höndunum aðferðarfræði og sniðmát sem við mælum með að notað sé þegar kerfi eru smíðuð, þeim breytt eða breytingar gerðar á staðallausnum fyrir Dynamics NAV.

Unnið í samstarfi við Microsoft

Sniðmátin eru unnin í samstarfi við Microsoft og þegar þetta er skrifað er búið að birta þrettán sniðmát á vefsvæði Microsoft.  Sniðmát gefa okkur fyrirfram ákveðna lausn á völdum verkefnum og þær leiðir sem við förum til að ná  markmiðinu.

Ef fyrirtæki þitt notar Dynamics NAV eða stefnir á að gera það í framtíðinni er nauðsynlegt að vera meðvitaður/-uð um þessi mál.  Þú verður að geta gert þá kröfu á þinn þjónustuaðila að hann fylgi þessum sniðmátum þegar nýjar lausnir eru gerðar og að hann fylgi aðferðarfræðinni eftir þegar breytingar eru gerðar og kerfi tengd saman.

Eldri Dynamics NAV lausnir fylgja ekki þessum línum sem ég er hér að mæla með.  Hluti af því verkefni að koma upplýsingakerfinu þínu í nýjustu útgáfu Dynamics NAV ætti að felast í sérskrifum og breytingum svo að þær fylgi þessum aðferðum sem gera mögulegt að uppfæra í nýjustu útgáfu af Dynamics NAV á hagkvæmari máta en raunin hefur verið.

Morgunverðarfundur um nýtt NAV 13. desember 2013

Advania heldur morgunverðarfund um nýtt NAV föstudaginn 13. desember n.k. þar sem ljósi verður varpað á það hvernig nýja útgáfan nýtist notendum sem best og hvað sé framundan í NAV heiminum.

TIL BAKA Í EFNISVEITU