12.3.2020 | Mannauðslausnir

Heilræði um heimavinnu frá mannauðssviði Advania

advania colors line

Langflestir hafa reynslu af því að vinna heima í skamman tíma og mjög margir geta rifjað upp reynsluna sem fylgdi því að læra heima. En eitt er að kunna, annað er að gera hlutina til skamms tíma og enn annað að halda út til lengri tíma. Hvort sem þú velur að vinna að heiman, neyðist til þess að vera í sóttkví eða einangrun, eru hér nokkur heilræði sem við mælum með: 

Hinrik Sigurður Jóhannesson mannauðsstjóri Advania skrifar: 

1. Þú ert í vinnunni – bara ekki í vinnunni!
Margir sjá það í hyllingum að geta átt náðuga daga heima fyrir, fjarri pressunni og stressinu sem er fylgifiskur nútímavinnuumhverfis. Flest höfum við prófað það á eigin skinni að vinna heima einn og einn dag eða dagpart og margir tala um að við slíkar aðstæður hafi þeir jafnvel komið meiru í verk en á skrifstofunni. Það er hins vegar tvennt ólíkt að taka dagpart heima í að upplifa loksins nirvana-að sem felst í að ná zero inbox í Outlook eða að vinna heima marga daga í röð. Við þurfum að gæta þess að hugarfarið sé rétt og við séum stillt inn á það að vera í vinnunni, þótt við séum heima hjá okkur.

2. Komdu þér upp vinnuaðstöðu
Vinnuaðstaða þarf ekki endilega að vera sérstakt herbergi, þar sem þú getur lokað þig inni og unnið. Það allra mikilvægasta er að þú eigir þér tilgreint svæði þar sem þú setur þig í þær stellingar að vera í vinnunni. Þetta getur t.d. verið tiltekið sæti við borðstofuborðið eða einhver staður á heimilinu sem þú tengir ekki við skemmtun eða afslöppun. Vonandi dettur svefnherbergið og sjónvarpssófinn út af listanum við þessa skilgreiningu. Ef hjá því er komist er ekki ráðlagt að sofa í sama rými og maður vinnur.

3. Hafðu vinnutíma
Miðað við þá tækni sem við búum yfir í dag og óþrjótandi brunn verkefna sem hvíla á okkur, er það ekki síður áskorun að láta ekki vinnuna gleypa allan daginn og allt kvöldið. Við þurfum að setja okkur mörk um það hvenær við erum í vinnunni, hvenær við tökum okkur hádegishlé og hvenær við hættum í vinnunni. Hingað til höfum við reitt okkur á ýmis konar vísbendingar úr umhverfinu, en nú þurfum við að passa upp á þetta sérstaklega.

4. Búðu til rútínu
Rútína hvers vinnudags byrjar á því að fara í vinnuna. Haltu þig eins nálægt þinni hefðbundnu rútínu eins og þú getur. Vaknaðu á sama tíma og venjulega, hreyfðu þig, farðu í sturtu, fáðu þér morgunmat og gerðu börnin klár fyrir skólann. Allt eins og þú gerir venjulega. Það er kannski undarlegt að taka það fram, en eitt það mikilvægasta er að klæða sig – í vinnufötin. Kannski væri ráð að klæða sig í skó líka – ef þú ert vanur að vera í skóm í vinnunni. Allt hjálpar þetta til við að stilla okkur inn á það að vera „komin“ í vinnunna. Svo er gott ráð að skipta um föt í lok vinnudags eða að brjóta upp skilin á milli vinnunnar og einkalífsins með einhverjum hætti.

5. Klukkaðu þig inn í vinnuna
Gerðu samkomulag við þá sem eru með þér í teymi eða með þér í hópi að þið takið örstutt klukk hvert við annað í upphafi vinnudags. Notið þann miðil sem ykkur finnst þægilegastur, en það hjálpar heilmikið upp á félagslega part vinnunnar að láta vita af sér og vita af því að aðrir vita af manni. Vertu óhræddur við að bóka vinnufélaga í stutt sync um það sem er í gangi. Stjórnendur sem eru með starfsfólk í heimavinnu ættu að temja sér þá reglu að heyra daglega í viðkomandi starfsmanni.

6. Heimilið eða vinnan, þar er efinn!
Aðstæður fólks eru mjög misjafnar. Fyrir suma felst áskorunin í því að halda sig við það að vera í vinnunni og láta ekki freistast og sinna heimilisstörfum samhliða. Sumir eru með börn sem þurfa tíma og athygli og þurfa að beita útsjónarsemi og klókindum til að geta skipulagt heimavinnuna. Enn aðrir þurfa að gæta sín á því að gleyma sér ekki í vinnunni og klukka sig aldrei út. Hverjar svo sem aðstæðurnar eru, er það mikilvægast af öllu að fjölskyldumeðlimir geri sér grein fyrir að þótt þú sért heima, þá ert þú samt í vinnunni. Það ætti því ekki að gera kröfur á viðkomandi um að sinna öðrum verkefnum en vinnutengdum á meðan á skilgreindum vinnutíma stendur.

7. Græjaðu þig upp
Það er ákveðinn staðalbúnaður sem þarf að vera til staðar til þess að fjarvinna virki. Sá staðalbúnaður inniheldur ekki endilega 4k skjá af nýjustu tegund. Grunnforsenda er auðvitað tölva og nettenging. Annað sem fellur undir staðalbúnað eru góðar græjur til að eiga samskipti við vinnufélaga. Góð heyrnatól gera gríðarmikið gagn. Í flestum tilvikum má segja að aðrar græjur falli undir aukabúnað.
Þegar upp er staðið þá eru það yfirleitt ekki verkefnin sjálf sem líða fyrir það að starfsfólk þarf að sinna þeim í fjarvinnu. Afköst og framleiðni starfsmanna eru ekki endilega minni þótt unnið sé að heiman. Í einhverjum tilvikum getur jafnvel falist meira næði í því að vinna heima og fólk kemur hreinlega meiru í verk en í amstri dagsins í vinnunni. En það er einmitt þetta amstur dagsins sem fólk saknar þegar til lengri tíma lætur. Við erum félagsverur og nærumst á samneyti við annað fólk. Helsta áskorunin sem felst í fjarvinnu snýr að félagslega þættinum. Við þurfum að vera sérstaklega vakandi fyrir honum og reyna að byggja inn í rútínu dagsins samskipti við vinnufélagana með því að nýta þau samskiptatól sem við búum yfir. Sé það gert, er mögulegt að halda fullum afköstum ásamt því að halda í starfsánægjuna sem við búum yfir alla jafna.


TIL BAKA Í EFNISVEITU