Heimir Hákonarson

Tæknimaður – Afgreiðslukerfi
„Vinnufélagarnir eru líka frábærir og mér fannst ég strax falla beint inn í hópinn sem er ekki sjálfgefið“

Hæ  Heimir! Hvernig hefur dagurinn þinn verið?

Hæ,dagurinn byrjar yfirleitt svipað hjá mér, ég reyni að mæta snemma og fara í ræktina hérna niðri og svo tökum við stuttan morgunfund þar sem farið er yfir verkefni dagsins. Ég reyni líka alltaf að fara yfir vaktkerfin hjá okkur fyrir opnun verslana þannig að ég geti séð og brugðist við ef eitthvað er ekki eins og það á vera. Eftir það er dagurinn bara nokkuð opinn og mismunandi, fer alfarið eftir því hvað er á döfinni hjá okkur hverju sinni. Við erum náttúrulega mestmegnis í beinni þjónustu við viðskiptavini okkar þannig að verkefnin eru mörg, misjöfn og út um allt, sem er eitt það skemmtilegasta við þetta.

Hvenær byrjaðir þú hjá Advania?

Ég byrjaði um miðjan maí núna 2021.

Hvað felst í starfinu þínu sem tæknimaður hjá Advania?

Í mínu starfi er ég bæði að sinna vélbúnaði og hugbúnaði, við erum að þjónusta afgreiðslukerfi fyrir ansi margar verslanir þannig að það eru alltaf frekar margir boltar á lofti.
Það koma upp ýmiskonar vandamál sem við leysum af bestu getu, ýmist í fjarvinnu frá skrifstofunni (eða heima) eða við förum á staðinn og leysum hlutina þar.
Við erum frekar mikið í vettvangsvinnu sem mér finnst vera ótvíræður kostur þar sem maður er í miklum samskiptum við fólk út um allan bæ.

Hvað leiddi til þig Advania?

Mig hafði lengi langað að byrja að vinna í tæknibransanum og var áður í verslunarstarfi þannig að mér fannst kjörið að reyna að fá tæknistarf þar sem reynsla mín úr þjónustustörfum myndi nýtast vel. Ég hafði heyrt um það að Advania væri frábær vinnustaður og hef ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum ennþá.

Hvernig myndir þú lýsa vinnustaðnum Advania?

Ég myndi segja að þetta sé frábær vinnustaður, fjölskylduvænn og með góða aðstöðu fyrir starfsfólkið. Hér er líkamsrækt, góð aðstaða fyrir hjólafólk að ógleymdu stórkostlegu mötuneyti. Vinnufélagarnir eru líka frábærir og mér fannst ég strax falla beint inn í hópinn sem er ekki sjálfgefið.

Hvaða vandamál eru þið að leysa fyrir viðskiptavini?

Eins og ég segi eru verkefnin okkar eins misjöfn og þau eru mörg. Þau eru yfirleitt þannig að maður þarf að ná að leysa hlutina nokkuð hratt og örugglega þar sem að það eru yfirleitt kúnnar sem þurfa að nota afgreiðslukerfin, þannig að þegar það koma upp einhver vandamál þurfum við að bregðast hratt við.

Einnig erum við að sjá um uppsetningar á vél- og hugbúnaði þannig að það eru nú oftast nokkrar hendur sem koma að hverju verki.

Hvernig er lífið á skrifstofunni?

Það er alltaf gott, mér finnst dagarnir fjölbreyttir og fljótir að líða, ég er náttúrulega tiltölulega nýr þannig að það er svo margt sem ég er ennþá að læra, en það er líka það sem er svo skemmtilegt, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og kynnast nýju fólki.

Eigum við samleið?

Sjáðu laus störf hjá Advania

Sjá störf