Sigfús Jónasson

Verkefnastjóri
Guðfræðin hefur gefið mér verkfæri sem nýtast daglega í mannlegum samskiptum, hvort sem það er við viðskiptavini eða samstarfsfólk.

Hæ Sigfús! Hvernig hefur dagurinn þinn verið? 

Dagurinn í dag hefur að mestu farið í fundi með viðskiptavinum, undirbúning á ýmsum stefnumótandi verkefnum og að búa til kynningarefni sem snýr að þeim lausnum sem við seljum á sviði fjarfunda. Partur af starfinu snýst sömuleiðis um að viðhalda þekkingu og lesa sér til um nýjustu tækni og tók ég smá tíma í dag til þess. Öll verkefni krefjast þess að maður hafi góðan skilning á því virði sem upplýsingatækni færir viðskiptavinum og þess vegna er mikilvægt að huga að þessu reglulega.

Hvenær byrjaðir þú hjá Advania?  

Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður hjá Advania árið 2014. Þegar sumarið var að líða undir lok var mér boðið að halda áfram og vinna samhliða skóla. Þessi þróun hélt svo áfram og ekki leið að löngu þar til ég var kominn í fullt starf.

Nú starfar þú innan Rekstrarlausna í lausna sölu. Hvað gerið þið?

Lausnasalan selur vél- og hugbúnað sem snertir daglegan rekstur fyrirtækja, eins og netþjóna, tölvur og öryggisvarnir. Vöruúrvalið er fjölbreytt og við seljum búnað frá mörgum framleiðendum. Mikilvægur hlekkur í okkar daglegu starfsemi er ráðgjöf til viðskiptavina um hvaða vörur henta þeirra markmiðum og innviðum.

Það besta við starfið mitt er að enginn dagur er eins. Fyrir utan tilboðsgerð og viðskiptastjórnun sé ég um verkefni sem snúa að virðisaukandi lausnum, markaðssetningu á vörum, þróun á vefverslun Advania og stefnumótandi aðgerðum til að ýta undir samkeppnishæfni deildarinnar.

Hvernig er stemningin á sölugólfinu?

Stemningin er mjög góð. Á sölusviðinu starfar fólk á öllum aldri með mismunandi bakgrunn sem getur leitt til skemmtilegra og líflegra umræðna og út frá þeim kvikna oft nýjar hugmyndir sem hafa jákvæð áhrif á fyrirliggjandi verkefni. Þá er mikið lagt upp úr heiðarlegum og opnum samskiptum og slíkur grunnur skilar yfirleitt góðum árangri.

Hvernig hefur vefverslun breytt sölustarfi?

Vefverslunin hefur breytt heilmiklu fyrir viðskiptavini okkar. Þörfin til að heyra í sölufólki hefur minnkað þar sem viðskiptavinir finna yfirleitt allt það sem þeim vantar á vefnum og geta því verslað hvar og hvenær sem þeim hentar. Vefverslunin okkar er ennfremur búin möguleikum til að hjálpa viðskiptavinum að einblína enn frekar á sín kjarnaverkefni. Ein slík lausn snýr að því að hægt er að deila vörukörfu og með því stofnast innkaupasíða en þannig geta fyrirtæki búið til staðlaða innkaupalista. Með þessu bjóðast hagræðingartækifæri þar sem búið er að straumlínulaga vörukaup og dýrmætur tími sparast fyrir önnur verkefni.

Hver er bakgrunnur þinn?

Flest störf sem ég hef sinnt eiga það sameiginlegt að tengjast sölu og tækni. Ég á einnig um 10 ára feril að baki í útvarpi en ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir hljóðvinnslu og hef í mörg ár samið mína eigin tónlist. Þá hef ég klárað bæði grunn- og meistaragráðu í Guðfræði og meistaragráðu í Stjórnun og stefnumótun.

Hvernig hefur námið nýst þér í vinnu?

Guðfræðin hefur gefið mér verkfæri sem nýtast daglega í mannlegum samskiptum, hvort sem það er við viðskiptavini eða samstarfsfólk. Námið leggur sömuleiðis mikið upp úr vel rituðu máli og hefur það hjálpað mér á ýmsum sviðum starfsins, til dæmis við gerð markaðsefnis. Stjórnun og stefnumótun hefur svo gefið mér dýpri þekkingu á þáttum sem snúa að verkefnastjórnun, viðskiptum, stefnumótun og stjórnun. Þó að þessar tvær námsleiðir séu að miklu leyti ólíkar þá nýtast þær daglega í vinnunni, hvor á sinn hátt.

Ertu til í að segja okkur hvernig er að eiga í samskiptum við ólíka viðskiptavini?

Þetta er líklega sá þáttur í starfinu sem ég fæ hvað mesta ánægju úr. Ekkert samtal er eins þar sem viðskiptavinir hafa ólíka sögu að segja og þarfirnar geta verið mjög misjafnar. Það er gaman að kynnast nýjum viðskiptavinum, heyra af þeirra vegferð og kynna hvernig upplýsingatæknin getur hjálpað þeim að ná sínum markmiðum. Það er einnig hægt að læra ótrúlega margt af þessum samtölum þar sem viðskiptavinir búa gjarnan yfir áralangri reynslu á sínu sérsviði og miðla þannig miklum fróðleik á móti.

Hvað leiddi til þig Advania?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og Advania var ofarlega í huga þegar ég fór að horfa í kringum mig í leit að vinnu í upplýsingatækni. Mér fannst líka frábært að eiga kost á að mæta í vinnuna á Akureyri þar sem ég fer reglulega norður að hitta fjölskylduna.

Hvernig myndir þú lýsa vinnustaðnum Advania?  

Hjá Advania starfar mikið af hæfileikaríku fólki sem hægt er að læra af og eru sérfræðingar á sínu sviði. Þá er auðvelt aðgengi að stjórnendum og þeir ávallt tilbúnir að miðla reynslu sinni og þekkingu. Advania hugar sömuleiðis vel að starfsaðstöðu þar sem boðið er upp á frábæran búnað og virk fjarvinnustefna er til staðar þar sem starfsfólk getur unnið þar sem því hentar.

Eigum við samleið?

Sjáðu laus störf hjá Advania

Sjá störf