Advania kaupir Knowledge Factory – leiðandi fyrirtæki á sviði upplýsingatækniumhverfa
Knowledge Factory er ráðgjafafyrirtæki á sviði upplýsingatækni með megin áherslu á högun upplýsingatækniumhverfa og tilfærslu úr hefðbundnu rekstrarumhverfi í skýjaumhverfi
- Advania hefur fest kaup á Knowledge Factory sem veitir ráðgjöf um högun upplýsingatækniumhverfa
- Fyrirtækið þjónustar ríflega 500 viðskiptavini um heim allan
- Rekstur Knowledge Factory er traustur en tekjur fyrirtækisins jukust um 47% árið 2014
Sérhæfing á sviði Microsoft lausna
Knowledge Factory er ráðgjafafyrirtæki á sviði upplýsingatækni með megin áherslu á högun upplýsingatækniumhverfa og tilfærslu úr hefðbundnu rekstrarumhverfi í skýjaumhverfi. Sérhæfing fyrirtækisins liggur einkum á sviði Microsoft lausna, en fimm starfsmenn fyrirtækisins hafa hlotið svokallaða MVP viðurkenningu frá Microsoft, sem veitt er einstaklingum sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á Microsoft lausnum. Alls starfa 35 manns hjá fyrirtækinu sem er með þrjár starfsstöðvar á Norðurlöndunum.
„Knowledge Factory er stærsta fyrirtækið á sínu sviði í Svíþjóð. Þetta skref er í samræmi við kröfur viðskiptavina okkar um heildstæða þjónustu á sviði upplýsingatækni. Með þessum kaupum fáum við meðal annars inn starfsfólk með mjög sérhæfða þekkingu sem kemur til með að nýtast viðskiptavinum okkar vel, bæði á Norðurlöndum og annarsstaðar“ segir Mikael Noaksson, forstjóri Advania í Svíþjóð.
Sterkt bakland í öflugum eiganda
Fyrirtækið verður rekið undir eigin merki á árinu en verður jafnframt tekjusvið innan Advania. Tobias Öien, forstjóri Knowledge Factory, tekur við nýrri stöðu og verður forstöðumaður upplýsingatæknihögunar hjá Advania í Svíþjóð.
„Þetta er rétta skrefið fyrir okkur. Rekstur okkar stendur traustum fótum og Advania sér verðmætin sem liggja í sérfræðiþekkingu Knowledge Factory. Rekstur Advania er sömuleiðis jákvæður og nú búum við að því að eiga sterkt bakland í öflugum eiganda sem hefur háleit markmið. Þetta gefur okkur tækifæri til að vaxa og þróast saman“, segir Tobias Öien, forstjóri Knowledge Factory.
Margir stórir viðskiptavinir
Meðal stærstu viðskiptavina Knowledge Factory eru Nordea, Ericsson, Mölnlycke Healthcare, Tele 2, Riksgälden, Swedish national debt office, Mistras og the Ministry of Foreign Affairs Dubai.
„Á undaförnum tveimur árum hefur Advania lagt áherslu á umbreytingu yfir í skýjalausnir. Með kaupunum á Knowledge Factory verða til tækifæri til að takast á við áhugaverðar áskoranir með núverandi viðskiptavinum, sem og tækifæri til að skapa ný viðskiptasambönd“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.