Sveigjanleiki er jafnréttismál
Sveigjanleiki gerir okkur ekki aðeins kleift að styðja starfsfólk okkar heldur skilar sér í aukinni framleiðni, lægri starfsmannaveltu og sterkari tengslum á vinnustaðnum. Þetta er stefna sem sýnir að við leggjum áherslu á fólk, en um leið er hún mikilvæg fjárfesting í framtíð fyrirtækisins. Þegar starfsfólk upplifir raunverulegan stuðning og skilning, verður það ekki aðeins ánægðara heldur leggur sitt af mörkum með meiri ástríðu og skuldbindingu.
Ingunn Guðmundsdóttir
mannauðssérfræðingur hjá Advania
Sveigjanleiki á vinnustað vísar til stefnu og starfshátta sem veita starfsfólki meira frelsi til að ákveða hvenær, hvar og hvernig þau vinna. Þetta snýst ekki eingöngu um fjarvinnu — heldur felur það líka í sér sveigjanlegan vinnutíma og sjálfræði til að nálgast verkefnin á ólíkan máta.
Sveigjanleikinn er sérstaklega mikilvægur í ljósi jafnréttismála. Hópar sem oft mæta kerfislægum hindrunum í atvinnulífinu—svo sem konur, foreldrar og einstaklingar í persónulegum erfiðleikum—hafa betri forsendur til að ná árangri þegar þörfum þeirra er mætt með sveigjanleika.
Að mæta „þriðju vaktinni“ …
Hugtakið sveigjanleiki tengist nánum böndum við „þriðju vaktina“—ógreiðanlegt andlegt og tilfinningalegt álag sem konur bera oftar en ekki þungan af. Auk starfsskyldna sinna (fyrsta vaktin) og heimilisverka (önnur vaktin) taka margar konur á sig ábyrgð sem óformlegir stjórnendur, hvort sem er innan fjölskyldu, í félagslegum samskiptum eða í vinnu.
Samkvæmt könnun McKinsey árið 2023 eru konur 1,5 sinnum líklegri en karlar til að eyða 10 eða fleiri klukkustundum í vikunni í umönnunarskyldur. Fyrir konur í fullu starfi getur þessi þriðja vakt verið óyfirstíganlegt álag, sem veldur aukinni streitu, stöðnun í starfi eða jafnvel brottfalli af vinnumarkaði.
Sveigjanleiki getur breytt miklu í þessum aðstæðum. Þegar konur hafa möguleika á að vinna að heiman, stilla vinnutíma sínum eða taka hlé til að sinna fjölskylduskyldum, eiga þær auðveldara með að samræma þessar ólíku skyldur. Sveigjanleiki stuðlar að því að konur og eða þau sem bera hitann og þungann af þriðju vaktinni geti haldið áfram að starfa, vaxið í starfi og lagt sitt af mörkum til árangurs fyrirtækisins.
Líka ávinningur fyrir karlmenn
Sveigjanleiki er oft tengdur við bætt starfsumhverfi fyrir konur eins og rannsóknir hafa sýnt fram á, en ávinningurinn er ekki síðri fyrir karla. Í samfélagi eins og Íslandi, þar sem við erum leiðandi í jafnrétti og þátttöku karla í uppeldi barna, getur sveigjanleiki stutt við og styrkt þessar framfarir með því að veita feðrum aukið frelsi til að sinna heimilislífi og börnum sínum eða öðrum verkefnum þriðju vaktarinnar án þess að upplifa sektarkennd yfir því að vera fastir á vinnustað á fyrirfram ákveðnum vinnutíma.
Þó það sé oft samfélagslega samþykkt að konur axli þriðju vaktina, jafnvel á kostnað starfsferils síns, standa karlar frammi fyrir öðrum áskorunum. Þeir eru líklegri til að mæta fordómum og fyrirframgefnum hugmyndum ef þeir velja að forgangsraða heimilislífi fram yfir vinnu. Þeir gætu upplifað að það sé dregið í efa hvort þeir séu nógu metnaðarfullir eða vinnusamir ef þeir vilja sinna börnum sínum, fara heim snemma eða skipta vinnudeginum upp til að sinna fjölskyldunni.
Sveigjanleiki á vinnustað greiðir þannig ekki bara leiðina fyrir þeim sem nú þegar sinna þriðju vaktinni, heldur eykur sveigjanleikinn einnig líkurnar á því að fleiri deili ábyrgðinni á þeirri vakt. Þannig getur sveigjanleiki skipt sköpum í að jafna stöðu kynjanna með tvíþættu afli.
Sveigjanleiki fyrir alla
Að bjóða upp á sveigjanleika í vinnu er ekki eingöngu til þess mæta þörfum fjölskyldufólks heldur er það hagur allra. Við vitum að margt starfsfólk þarf að takast á við ýmsar áskoranir í lífinu, sýnilegar og ósýnilegar og hefur öðrum skyldum að sinna utan vinnunnar. Það getur verið að annast aldraða foreldra, glíma við langvinna sjúkdóma, sinna eigin andlegri heilsu eða jafnvel að stunda nám til að bæta eigin framtíðarmöguleika. Sveigjanlegur vinnustaður gerir fólki kleift að sinna þessum verkefnum án þess að það þurfi að fórna starfsframa sínum eða upplifa óþarfa streitu vegna ósveigjanlegs skipulags.
Á Íslandi er mikið lagt upp úr velferð og samfélagslegri ábyrgð, og fyrirtæki sem bjóða upp á sveigjanleika sýna með því að þau eru hluti af þeirri menningu. Það er viðurkennt að starfsfólk tekst á við ólíkar áskoranir á mismunandi tímum í lífi sínu. Sveigjanleiki gefur fólki frelsi til að laga vinnudaginn að sínum aðstæðum, hvort sem það þarf að skipta vinnudeginum upp, vinna að heiman eða taka sér tíma í persónuleg mál. Með þessu geta fyrirtæki betur mætt þörfum starfsfólks, sem skilar sér í meiri starfsánægju og sterkari tengslum við vinnustaðinn.
Með því að innleiða sveigjanleika, hvort sem það er með fjarvinnu, sveigjanlegum vinnutíma eða öðrum úrræðum, sendum við skýr skilaboð: Við mætum starfsfólki þar sem það er statt í lífinu og veitum því svigrúm til að ná jafnvægi. Þetta er stefna sem við trúum á—og við höldum áfram að þróa hana til að mæta þörfum okkar starfsfólks. Því við erum Advania: Tæknifyrirtækið sem setur fólk í fyrsta sæti.