Hvað er þetta Oracle?

Oracle fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins hafa verið í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga. Að gefnu tilefni hefur undirritaður sett saman nokkra punkta um þetta viðamikla kerfi, sem hefur um ellefu ára skeið þjónað tugþúsundum notenda.
Aðalatriðin í þessari samantekt eru eftirfarandi.
- Oracle hefur um 115 þúsund sérfræðinga í vinnu við framþróun sinna lausna
- Oracle fjárhags- og mannauðslausnir eru notaðar af 65 þúsund fyrirtækjum
- Kerfið hefur verið innleitt hjá 213 stofnunum hér á landi og hefur 16 þúsund notendur
- Oracle-innleiðingin er gríðarlega umfangsmikil og slík verkefni eru aldrei hnökralaus
Öflugur bakhjarl
Fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins byggir á Oracle E-Business Suite frá Oracle Corporations, sem er stærsta hugbúnaðarfyrirtæki veraldar þegar kemur að lausnum fyrir stórar og flóknar rekstrareiningar með dreifðan rekstur og miklar kröfur til upplýsingatækni. Oracle Corp. er alþjóðlegt risafyrirtæki, sem veltir árlega um 4.600 milljörðum króna og starfslið fyrirtækisins telur um 115 þúsund manns. Fyrirtækið hefur reynst ómetanlegur og öflugur bakhjarl í þessu verkefni.
65 þúsund viðskiptavinir
Fjárhags- og mannauðskerfi Oracle eru í notkun hjá 65 þúsund fyrirtækjum og stofnunum á heimsvísu. Þar á meðal eru Alcoa, AT&T, Facebook, France Telecom, Fujitsu, Hyundai, LG Electronics, McDonald's, skoska ríkið, Toyota, Unisys og Virgin. Þessir aðilar velta tugþúsundum milljarða króna, starfsfólk þeirra er talið í milljónum og viðskiptavinir skipta hundruðum milljóna.Kemur víða við sögu
Oracle kemur við sögu á flestum sviðum í starfsemi hins opinbera. Það inniheldur yfir 60 kerfishluta og 400 séraðlagaðar einingar.
Þrír stærstu hlutar kerfisins skiptast í fjárhag, mannauð og vörustýringu.
- Fjárhagur; reikningar, afstemmingar, uppgjör, samþykktir, skjöl og verkefni
- Mannauður; laun, ráðningarferli, fræðsla, vaktir og viðvera
- Vörustýring; birgðir, framleiðsla, innkaup, sala, útboð, verslun og eignaumsjón
Framþróun Oracle á Íslandi
Ör framþróun kerfisins og uppfærslur á því þýða að kerfið sinnir víðtækara hlutverki í dag, en gert var ráð fyrir í upphafi. Slíkt er vel þekkt í umfangsmiklum upplýsingatækniverkefnum, nýir möguleikar hafa opnast og þarfir notenda breyst. Frá því að kerfið var tekið í notkun hafa verið þróaðar fjöldi svokallaðra sérlausna og mikil vinna verið lögð í framþróun kerfisins, í samræmi við óskir verkkaupa. Grunnkerfi Oracle E-Business Suite hefur farið í gegnum tvær umfangsmiklar uppfærslur sem fólu í sér nær algera endurnýjun á bæði innviðum þess og notendaviðmóti.