5.12.2012 | Blogg

SharePoint stefnir í skýið - SharePoint Conference 2012 í Las Vegas

advania colors line
Microsoft hélt ráðstefnu um SharePoint og tengd kerfi 12.–15. nóvember í Las Vegas. Ráðstefnan var mjög fjölmenn, reyndar sú fjölmennasta sem Microsoft hefur haldið fyrir staka vöru, en ráðstefnugestir voru um 10.000 manns. Megináherslan á ráðstefnunni var á nýja útgáfu, SharePoint 2013, en hún kemur til með að leysa af hólmi eldri útgáfu sem sett var á markað árið 2010.

Advania hefur verið leiðandi í uppsetningu og innleiðingu á SharePoint til margra ára. Fulltrúar félagsins fóru því á SharePoint Conference 2012 ráðstefnuna í Las Vegas til að kynna sér nýju útgáfuna og helstu strauma og stefnur varðandi notkun á þessu vinsæla kerfi. Hér á eftir verður stiklað á nokkrum atriðum sem vöktu athygli en ég nefni að þessi upptalning er ekki tæmandi yfirferð á öllum þeim nýjungum sem SharePoint 2013 inniheldur.

Helstu nýjungar og breytingar

SharePoint er stórt og margslungið kerfi og því af afar mörgu að taka þegar kemur að því að lýsa virkni og notkun þess. 

90 DAGA UPPFÆRSLUHRINGUR OG OFFICE 365
Í lykilfyrirlestri ítrekaði Microsoft þá stefnu sína að Microsoft myndi leggja vaxandi áherslu á SharePoint í skýinu. Þetta þýðir meðal annars að virkni SharePoint í nýju útgáfu Office 365 er nánast sambærileg við SharePoint 2013 sem hýstur er staðbundið. Til þess að sýna þetta í verki þá voru öll sýnidæmi frá Microsoft sem ég sá eingöngu útfærð í Office 365 útgáfunni. Microsoft tilkynnti að frá og með þessari útgáfu SharePoint yrði Office 365 útgáfan (sú sem keyrir í skýinu) uppfærð á 90 daga fresti. Notendur munu sem sagt fá nýjungar og bætta virkni á þriggja mánaða fresti. 

SOCIAL
Í 2010 útgáfunni af SharePoint sáum við hvernig aðferðafræði samfélagsmiðla er að hefja innreið sína í innri kerfi fyrirtækja. Með 2013 útgáfunni er stigið stórt skref í átt að frekari notkun samfélagsmiðla. Nánast er sama hvar við erum í SharePoint, við getum skrifað athugasemdir og svarað eða sett inn „hashtag“ (t.d. #sharepoint) sem auðvelda leit. Hér er ég ekki eingöngu að tala um spjallþræði eða stöðulínur starfsmanna – heldur einnig það efni sem unnið er með. Við getum til dæmis deilt skjölum (share) til annarra starfsmanna eða fylgst með (follow) þeim á einfaldan hátt.

Búið er að gera miklar breytingar á umræðum og umræðuþráðum, nú fylgja sniðmát með fyrir slíkt (Community Site).

Ekki má gleyma því að fyrir nokkru keypti Microsoft Yammer fyrirtækið sem hefur verið með eitt vinsælasta „social“ kerfið fyrir fyrirtæki. Ekki er þó búið að samþætta SharePoint og Yammer í eina lausn (Yammer í SharePoint) en augljóst er hvert stefnir. Búið er að bæta við virkni í Yammer varðandi skjöl og meðferð skjala.

BETRUMBÆTT VIÐMÓT OG AUÐVELDARI AÐLÖGUN ÚTLITS

Þegar viðmót nýja SharePoint 2013 er skoðað þá er það fyrsta sem við tökum eftir sem notendur hversu mikið er í raun búið að einfalda það. Búið er að raða hlutum upp á annan máta en í 2010 útgáfunni og gera helstu aðgerðir aðgengilegri. Sem dæmi þá er nú hægt að draga skjöl beint inn í skjalasöfn.

Fyrir viðmótshönnuði er breytingin líklega enn meiri og ber þar hæst að nefna að nú er hægt að nota hvaða tól sem er (t.d. Dreamweaver) til þess að hanna viðmót sem er notað í SharePoint. Einnig er formun á útliti vefparta (t.d. fyrir lista af skjölum) orðin mun sveigjanlegri og hægt að útbúa mismunandi birtingarform (Display Templates).

Fyrir okkur sem ekki erum flinkir viðmótshönnuðir þá er úrval tilbúinna sniðmáta fyrir útlit meira og sveigjanlegra og hægt að smíða slík til seinni tíma notkunar. Eitt verð ég að nefna til biðbótar í lokin varðandi útlit og virkni. Nota má lista (Managed Metadata Term Set) til þess að skilgreina efnisyfirlit (Navigation). Þetta atriði gerir viðmótshönnunina og skipulag vefsins mun sveigjanlegri sér í lagi þegar þessi eiginleiki er nýttur með nýjum vefpörtum fyrir leit.


ÖFLUG LEIT
Í SharePoint 2013 er FAST leitarvélin notuð. Nú er hún innifalin en ekki seld sérstaklega. Helstu nýjungar eru að fyrir gefna leitarniðurstöðu er hægt að fá forsýningu á viðkomandi efni þar sem hægt er að skoða ítarlegar upplýsingar um efnið og jafnvel vinna með það (t.d. fletta á milli glæra í PowerPoint skjali) án þess að fara út úr leitinni (sjá mynd). 

 

Leit í „social“ gögnum er með svipuðu sniði og fyrir önnur gögn. Þetta er afar mikilvægt þar sem miklum upplýsingum er oft miðlað í gegnum það form. Og þar sem við höfum nú nýja vefparta sem nýta leitarvélina þá getum við sett saman upplýsingasíður sem draga saman á einn stað upplýsingar sem geymdar eru á mismunandi formi og á mismunandi stöðum.

LEYFISBREYTINGAR
Microsoft breytir fyrirkomulagi leyfa í SharePoint 2013, þau leyfi sem verða eru: 
  • SharePoint Server 2013 
  • SharePoint Standard CAL 
  • SharePoint Enterprise CAL til viðbótar

Önnur leyfi svo sem FAST Search og SharePoint Internet leyfin eru ekki lengur til og í raun orðin óþörf fyrir utanaðkomandi notendur og Internetlausnir. En SharePoint lausnir eru áfram hluti af Office 365 pakkanum. SharePoint Server leyfið hækkar um 28% til 38% í verði en sú hækkun fer eftir samningsfyrirkomulagi hverju sinni. SharePoint Foundation verður áfram í boði en SharePoint Workspace breytist mikið og fær nýtt nafn SkyDrivePro og verður áfram hluti af Office vöndlinum og er fyrir „Offline“ vinnslu.


NÁNARI UPPLÝSINGAR
Varðandi frekari upplýsingar þá bendi ég á að búið að blogga mikið um þessa nýju útgáfu. Sem sérstakur áhugamaður um Office tól, svo sem Excel þá hvet ég lesendur til þess að skoða nýjungar í 2013 útgáfunni af Office.

Ef spurningar vakna þá erum við hjá Advania boðin og búin að veita upplýsingar um þessa nýju og spennandi útgáfu af SharePoint. Sendið mér gjarnan línu. Ég hefði gaman af því að heyra frá ykkur.

TIL BAKA Í EFNISVEITU