10.4.2013 | Blogg

Endurforritun menntunar

advania colors line

Þegar ég var barn passaði ég ekki alveg inn í þennan týpíska mennta-kassa.  Ég áttaði mig ekki almennilega á því af hverju mér leið illa í skólanum og af hverju ég þurfti að lenda á svona mörgum veggjum.  Þegar ég var níu ára fékk ég fyrstu tölvuna mína, Sinclair Spectrum, sem maður tengdi við sjónvarp og segulband

Ég byrjaði strax að rækta "nördluna" í mér og fór að forrita.  Ég forritaði bæði eftir forskrift og einnig mína eigin tölvuleiki. Þarna fann ég fyrir innri ró og styrkleika - eitthvað sem ég gat ekki fundið innan veggja skólakerfisins.  Ég vildi óska þess að ég hefði haft tækifæri til að fá að njóta mín fyrir styrkleikana í staðinn fyrir að athyglin hafi oftast beinst að veikleikunum sem ADHD krakki glímir við í gamaldags skólastofu. 

 

Skema

Ég hef oft velt þessu blessaða menntakerfi fyrir mér og hugsað um leiðir til að efla það út frá einstaklingsmiðuðu sjónarmiði.   Fyrirtækið Skema er afrakstur þessara vangaveltna.  Skema stendur fyrir fjölbreyttum forritunar-námskeiðum fyrir ungt fólk frá sex ára aldri og kennara-námskeiðum auk þess að vinna markvisst að innleiðingu á forritun og spjaldtölvum inn í grunn- og framhaldsskóla landsins.  Í gegnum námskeiðahald hefur Skema-aðferðafræðin verið þróuð en það er aðferðafræði byggð á rannsóknum í sálfræði, kennslufræði og tæknifræði til að kenna fyrstu skrefin í forritun.  Skema-aðferðafræðin er ekki einungis ætluð til að kenna forritun heldur einnig til að byggja upp jákvætt viðhorf til tækninnar almennt.     

Framtíðar-forritarar = Skema-Kynslóðin

 

Með því að hefjast handa snemma og helst fyrir unglingsárin þá fá bæði kynin tækifæri til að sjá möguleikana sem tæknin getur boðið þeim upp á.  Þau geta farið úr því að vera hinn hefðbundni neytandi yfir í að skapa sín eigin forrit.  Það er í kringum unglingsárin sem við festum í sessi stereótýpur.  Flestir verða hræddir við tækni og forritun því að umhverfið segir okkur að aðeins nördar geti lært að forrita og að það sé ótrúlega erfitt og þá sérstaklega fyrir stelpur.  Ef börn fá snemma að kynnast forritun á jákvæðan hátt mun tæknin horfa allt öðruvísi við þeim og mörg hver vilja læra meira og byrja jafnvel að móta framtíðina í átt að tækninámi.

"Dóttur minni finnst þetta skemmtilegasta fagið í skólanum þessa önnina og segist ætla að verða forritari þegar hún verður stór. Það segir allt sem segja þarf. Ég er mjög ánægð með þetta framtak og vona að forritun verði kennd öllum grunnskólanemendum í framtíðinni."
- Móðir 10 ára stelpu

Samfélagslegur ávinningur

Hagkerfi framtíðarinnar byggir á tækni, tæknilæsi og þekkingu. Í dag er þjóðfélagið háð tæknimenntuðu fólki til að hægt sé að nýta tæknina eins mikið og mögulegt er.  Mikil eftirspurn er á markaði eftir tölvu- og tæknimenntuðu fólki og fjölbreytt tækifæri í boði.  Við þurfum að byrja strax að að þjálfa upp næstu kynslóð og efla tölvufærni í þágu þverfaglegrar hæfni í framtíðinni.  Við þurfum að læra að vinna með tölvuna en ekki bara vinna á hana – líkt og við þurfum að læra að skrifa jafnt sem lesa.  Það þarf því að gera umbætur í kennslustarfi í takt við tækni- og þjóðfélagslegar breytingar og koma kennslu í forritun inn í almenna kennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.   

Samfélagsleg ábyrgð

Verið er að vinna að mótun verkefnasjóðs til að gefa sem flestum skólum landsins tækifæri til að stíga skrefið í átt að menntun í takt við tækniþróun með Skema.  Ég skora að lokum á stjórnvöld og fyrirtæki landsins að hafa samband og leggja okkur lið við innleiðingu á forritunarkennslu í skóla landsins.

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU