2.1.2014 | Blogg

Hvað ber hæst í upplýsingatækni árið 2014?

advania colors line
Það er vandi að spá, sérstaklega um framtíðina. Sérfræðingar greininga-  fyrirtækisins Gartner láta það ekki aftra sér en þeir hafa gefið út yfirlit yfir það sem þeir telja að hafi mest áhrif á upplýsingatækni á árinu 2014. Gartner setur samruna fjögurra nýjunga í upplýsingatækni í brennidepil. Hér er átt við samfélagsmiðla, snjalllausnir (mobile lausnir), skýjalausnir og sívaxandi magn upplýsinga og gagna sem fyrirtæki þurfa að stýra og greina. 

Samfélagsmiðlar alltaf skammt undan

Samfélagsmiðlar gegna sífellt stærra hlutverki í lífi fólks og ekki virðist lát þar á. Þeir tengjast í vaxandi mæli vinnutækjum starfsmanna og þá má nýta í faglegum tilgangi, bæði til þess að leita eftir upplýsingum hjá samstarfsmönnum eða miðla þekkingu til þeirra. Nú er óalgengt að lokað sé fyrir samfélagsmiðla hjá fyrirtækjum eða stofnunum. Það er væntanlega stutt í að samfélagsmiðlar verði viðurkenndir sem vinnutæki sem greiða fyrir samskiptum og samvinnu á vinnustöðum.

Allskonar snjalltæki allstaðar

Snjalltæki sem starfsmenn nota við vinnu sína og eiga gjarnan sjálfir eru útbreidd og fjölbreytt hvað varðar virkni og notkun. Fyrir þá sem hafa áhuga á samkeppni á milli stýrikerfa þá spáir Gartner því að Apple, Microsoft og Android munu halda áfram að skipta markaðnum á milli sín með svipuðum hætti og áður. Tækjunum sem fólk notar og tengir saman í leik og starfi mun þó fjölga stórlega að áliti sérfræðinga Gartner. 


Fyrirtæki standa frammi fyrir risavöxnu verkefni sem snýst um að stýra notkun þessara tækja. Gartner mælir með að fyrirtæki setji skýrar línur um hvernig starfsmenn megi nota eigin tæki við störf sín. Sjónarmiðin um sveigjanleika og öryggi vegast þar á. Hættan er sú að línan á milli persónulegra gagna og vinnugagna verði óskýr. Starfsmenn þurfa að hafa í huga að gögn sem skráð eru með aðstoð smáforrita eru oft vistuð í gagnagrunnum sem erfitt er að henda reiður á hverjir komast í. Þetta skiptir máli fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vinna með viðkvæm gögn. Umræða um þessi mál er skammt á veg komin en hún er að engu síður brýn. 


Snjalllausnir í sókn

Samkvæmt Gartner verða fyrirtæki að gera greinarmun á einföldum öppum með afmarkaðri virkni og umfangsmeiri hugbúnaði með mikla virkni. Möguleikar á að nota vídeó og raddskipanir eru að færa mönnum meiri möguleika hvað varðar þróun og notkun snjalllausna. Sem fyrr glíma menn við hvort þeir eigi að búa til öpp eða nýta veflausnir. Ekki sést í land í þeirri umræðu allri að mati Gartner. 

Internetið alls staðar

Netið er ekki lengur aðeins notað til að tengja saman tölvur og farsíma. Nú er farið að nettengja ótrúlegustu hluti eins og til dæmis skynjara, bíla og sjónvörp. Fæst fyrirtæki eru þó tilbúin til að hagnýta sér þessa tækni að sögn sérfræðinga Gartners. Það er kannski ráð að fara að hugsa fyrir þessu þar sem Gartner spáir því að árið 2020 verði 25 billjónir hlutir samtengdir á heimsvísu. 

Skýjað með köflum

Gartner ráðleggur fyrirtækjum að taka fullan þátt í skýjabyltingunni. Samkvæmt Gartner eiga fyrirtæki að þróa sín einkaský þannig að þau geti tengst almennum skýjaþjónustum. Með tilkomu skýjalausna breytist starfssvið tölvudeilda í þá átt að þær veita í vaxandi mæli öðrum deildum ráðgjöf í notkun tölvuskýja og greiða leið þeirra þangað. Með tilkomu skýjaþjónustu fyrir einstaklinga verður enn auðveldara fyrir þá að nýta upplýsingatækni á þeirra eigin forsendum inni á vinnustöðum með tilheyrandi álitamálum og áhættu hvað varðar upplýsingaöryggi. Ekki auðveldar þetta upplýsingatæknideildum fyrirtækja stýringu á UT málum. 

Notkun tölvuskýja felur í sér risastórt hagræðingartækifæri fyrir íslenska stjórnsýslu. Við notkun þeirra verða þó til álitamál um hvar gögn eru vistuð og hvernig þau eru tengd saman. Íslenskar stofnanir búa gjarnan við dreifstýrt upplýsingatækniumhverfi. Slíku fylgir óhagræði í rekstri upplýsingatæknimála og getur falið í sér að tækifæri til bættrar þjónustu fari forgörðum. Þar má til dæmis nefna samtengingu gagna sem gerir stjórnsýsluna „snjallari“ og greiðir aðgang að ópersónubundnum upplýsingum og skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga. Sýnt hefur verið fram á að umtalsvert samfélagslegt virði sé í slíkum gögnum.


Klárar vélar í þinni þjónustu

En Gartner skyggnist líka lengra inn í framtíðina en til ársins 2014 og spáir því að um 2020 fáum við í þjónustu okkar margvíslegar lausnir sem byggja á gervigreind. Dæmi um þetta er t.d. Watson tölva IBM og sjálfkeyrandi bílar. Gartner spáir að einstaklingar ekki en síður en fyrirtæki muni njóta góðs af slíkum lausnum.

Þrívíddarprentarar verða algengir

Þá spáir Gartner mikilli sölu á þrívíddarprenturum á næstu árum. Mjög dýrir og sérhæfðir þrívíddarprentarar hafa verið á markaðunum í tvo áratugi. Gartner sér mikinn vöxt í tækjum sem kosta á bilinu 500 – 50 þúsund dollara. Þó er óljóst hvort þrívíddarprentun komist klakklaust í gegnum þær væntingar sem ýmsir tæknibloggarar hafa blásið upp.


Hvað nákvæmlega framtíðin ber í skauti sér veit þó enginn en ofangreindir spádómar gefa að minnsta kosti til kynna að upplýsingatækni verði áfram spennandi vettvangur á komandi árum.


TIL BAKA Í EFNISVEITU