12.3.2014 | Blogg

Framtíð SharePoint kynnt með stæl

advania colors line
Stærsta SharePoint ráðstefna Microsoft til þessa, SPC14, var haldin í Las Vegas dagana 2.-6. mars.  Yfir 10 þúsund SharePoint sérfræðingar alls staðar að úr heiminum sóttu ráðstefnuna og að sjálfsögðu átti litla Ísland fulltrúa þar.

Bill Clinton opnaði ráðstefnuna

Það var enginn annar er 42. forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, sem setti tóninn með glimrandi setningarræðu.  Fjallaði hann einkum um störf sín að mannúðarmálum hvernig samtök hans hafa nýtt tæknina til að bæta líf fólks á þeim svæðum sem þau hafa tekið upp á arma sína.  
Jeff Teper, sem er hvorki meira né minna en Corporate Vice President, Office Servers & Services Program Management, Applications & Services, kynnti til sögunnar Office Graph ( byrjar á 11:36 mínútu)  sem er ný þjónusta og sýnir tengsl skjala við samstarfsmenn og hópa innan fyrirtækisins. 
 
 
Næsta vara sem kynnt var til sögunnar ber vinnuheitið Oslo.  Oslo er app sem nýtir upplýsingar úr Office Graph og setur þær fram á líflegan máta.  Notandinn hefur alltaf fyrir augunum þau skjöl sem eru mest viðeigandi á hverjum tíma.  Gert er ráð fyrir að Oslo verði gefið út síðar á árinu fyrir notendur Office 365, þó hugsanlega undir öðru heiti. 
 

Office 365 í hröðum vexti

Það fór ekki framhjá neinum sem sótti ráðstefnuna að Office 365 er mál málanna hjá Microsoft.  Notkun á Office 365 hefur vaxið gríðarlega mikið og  veltir núna 1.5 milljörðum dollara á ári. Þetta er sú Microsoft vara sem hefur vaxið hraðast af öllum frá upphafi.  Kynnt voru til sögunar ný API fyrir Office 365 og í kjölfarið á því Android Software Development Kit (SDK) fyrir Office 365 sem auðveldar forriturum að nota áðurnefnt Office 365 API.  Nafn samkeppnisaðilans, Google, kom upp í nokkrum fyrirlestrum á ráðstefnunni, nokkuð sem hefði verið óhugsandi fyrir stuttu síðan. Ég verð að segja að ég kann vel við þessa nýju stefnu.

 

Óvissa um hvað tekur við eftir InfoPath

Eins og áhugamenn um InfoPath vita þá kom tilkynning nú í janúar um að núverandi útgáfa forritsins verði sú síðasta.  Microsoft var með kynningu sem bar yfirskriftina „Update on InfoPath and SharePoint forms“ en þar vonuðust áhorfendur eftir nánari upplýsingum um hvað á að taka við eftir InfoPath. Þar kom fram að ekki er búið að ákveða hvað tekur við og að InfoPath verður stutt til ársins 2023.  Það er því engin ástæða til að örvænta, menn halda bara áfram að keyra InfoPath formin sín.  Ef þú vilt hafa áhrif á hugmyndavinnu Microsoft á þessu sviði er hægt að koma skoðunum á framfæri til Microsoft í gegnum vefinn. 

Til að lífga upp á kynninguna var frumsýnt app til að búa til form yfir SharePoint lista.  Appið, sem ber nafnið „Forms over SharePoint lists“ (FoSL), er ennþá á fyrstu stigum þróunar en lítur ágætlega út.  Áætlað er að appið fylgi með næstu útgáfu SharePoint sem væntanleg er á næsta ári.
Kynningunni lauk á að Microsoft benti á samstarfsaðila sem bjóða lausnir sem gera mönnum kleift að búa til og vinna með form.  Tvö þekktustu fyrirtækin af þeim sem nefnd voru eru K2 og Nintex (Nintex er samstarfsaðili Advania).

Ég var svo heppinn að hitta Mike Fitzmaurice hjá Nintex og átti við hann gott spjall.  Nintex hefur, ásamt því að hafa um árabil boðið lausnir sem einfalda gerð og utanumhald verkferla, einnig boðið upp á Nintex Forms sem bent var á í fyrirlestri Microsoft. 

Mike (til hægri á myndinni hér að ofan) er þekktur í SharePoint heiminum.  Hann starfaði hjá Microsoft við þróun á SharePoint áður en SharePoint hét SharePoint! Hann færði sig yfir til Nintex árið 2010 og hefur gert góða hluti þar.  Mike heldur úti skemmtilegu bloggi þar sem meðal annars má lesa hugleiðingar hans varðandi InfoPath.

Allt sem þú þarft á einum stað með Harmon.ie

Harmon.ie er annar góður samstarfsaðili Advania. Áhersla þeirra er að bæta upplifun SharePoint notandans með því að hafa allt sem hann þarf á að halda aðgengilegt úr Outlook. Þetta kalla þeir „single screen experience.“ Outlook er einmitt það forrit sem flestir hafa  opið allan daginn þegar unnið er við hefðbundna tölvu.  Þannig getur starfsmaður t.d. á einfaldan hátt dregið skjöl frá Outlook yfir í SharePoint.  Hjá Harmon.ie leggja menn einnig mikla áherslu á að hægt sé að nota Harmon.ie á öllum helstu snjallsímum og spjaldtölvum, þannig að framsetning efnis aðlagi sig tækinu sem notað er.

Allir fyrirlestrar aðgengilegir á vefnum

Á ráðstefnunni voru margir skemmtilegir og fróðlegir fyrirlestrar sem gaman var að sækja og fær Microsoft 10 í einkunn fyrir góða skipulagningu og val á fyrirlesurum.  Þess ber að geta að áætlað  er að allir fyrirlestrarnir verði aðgengilegir á vefnum innan 30 daga þannig að nú er um að gera að smella sér á einn eða tvo „online“ fyrirlestra þegar að því kemur.

TIL BAKA Í EFNISVEITU