24.9.2014 | Blogg

Árshátíð upplýsingatækninnar 2014

advania colors line
Við hjá Advania héldum okkar fjölmennustu Haustráðstefnu til þessa 12. september síðastliðinn. Um 1.100 gestir troðfylltu Hörpuna þar sem í boði var að hlýða á 31 fyrirlestur - 27 almenna og fjóra lykilfyrirlesara. Það er skemmst frá því að segja að fyrirlestrarnir á ráðstefnunni voru bæði áhugaverðir og fjölbreyttir og fóru nokkrir þeirra langt fram úr væntingum, eða eins og einn ráðstefnugesturinn orðaði það: „Allir góðir og nokkrir frábærir“.

Fjölbreytni er orðið

Magnús Scheving frumkvöðull var fyrstur á svið. Hann er þekktur fyrir kraft og áræðni þegar hann kemur fram og það var einmitt það sem við hugsuðum þegar við settum saman dagskrána, að Maggi mundi vekja ráðstefnugesti svona í upphafi dags. Hann hélt skemmtilegt erindi um það hvernig hann hefur náð árangri í gegnum tíðina. Meginboðskapurinn var að ástríða, skýr sýn og seigla sé lykillinn að því að ná langt. Við getum því miður ekki sýnt fyrirlesturinn hans hér, en nokkrar myndir eigum við þó af kappanum og gestunum í salnum.

Hægt er að finna myndasyrpu frá ráðstefnunni á Facebook síðu Advania.

Google og tölvuskýin

Þá var komið að Google manninum sem margir höfðu beðið eftir. Jesper Ritsmer Stormholt stýrir Google for Work á Norðurlöndunum var næstur lykilfyrirlesara á svið. Hann fór á kostum þegar hann sýndi hvernig raddstýring á snjallsíma getur auðveldað okkur lífið. Jesper fór einnig ítarlega yfir þann ávinning sem fyrirtæki geta haft af hagnýtingu tölvuskýja. Hreint magnað show hjá kappanum.

Allt nettengt í henni veröld 

Jim Grubb nokkur gerði sér lítið fyrir og flaug þvert yfir hnöttinn til að vera með okkur á Haustráðstefnunni. Hann er hvorki meira né minna en Chief Demonstration Officer hjá Cisco og fjallaði um hvaða þýðingu það hefur þegar öll tæki, byggingar, farartæki og já bara allt í veröldinni verður nettengt. Gagnamagn mun stóraukast, nýir möguleikar opnast við stjórnun fyrirtækja, ýmiss kostnaður minnkar – en mesta áskorunin verður í að tryggja öryggi allra þeirra upplýsinga sem til verða við þessa byltingu. 

 

Hugvekja um nýsköpun

Þorsteinn B. Friðrikssson forstjóri og stofnandi Plain Vanilla Games hélt síðasta lykilfyrirlestur dagsins. Hann lýsti því hvernig það gekk að fá fjármögnun á QuizUp leiknum hjá bandarískum fjárfestum og hélt hugvekju um hvernig byggja má upp betra nýsköpunarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki. Það var mál manna að Þorsteinn hefði farið á kostum í sínum flutningi og sem betur fer gaf hann okkur leyfi til að birta fyrirlesturinn svo þú getur notið hér. 
 
 

Pössum tölvurnar og okkur sjálf 

Í öryggiskönnun sem fyrirtækið Syndis gerði meðal íslenskra fyrirtækja reyndust 71% tölva vera með alvarlegan öryggisveikleika. Theódór R. Gíslason, sérfræðingur í tölvuöryggismálum flutti hugvekju um upplýsingaöryggi og sagði frá könnun á stöðu öryggismála hjá íslenskum fyrirtækum. Sláandi niðurstöður blöstu við fólki og sennilega hafa margir hugsað sinn gang eftir að Teddi lauk máli sínu.

 

Meira um þrjóta á netinu

Niðritími vefsetra og upplýsingakerfa getur kostað fyrirtæki stórfé. Í vaxandi mæli eru það tölvuglæpamenn sem gera svokallaðar DdoS árásir sem valda niðritíma til að valda slíkum skaða. Eins ótrúlega og það hljómar þá verða jafnvel góðgerðarfélög fyrir slíkum árásum. Matt Mahvi frá Staminus Communications fór ítarlega yfir hvernig má hindra slíkar árásir. Skapaðu fyrirtækinu þínu sérstöðu

Paula Gould er markaðsstjóri GreenQloud, en fyrirtækið hefur markað sér mikla sérstöðu á heimsvísu með umhverfisvænum hýsingarlausnum. Paula fjallaði einmitt um hvernig sprotafyrirtæki getur markað sér skýra sérstöðu á markaði og af hverju það er nauðsynlegt fyrir einmitt þau.Tæknivæddir bjargvættir

Upplýsingatækni er þýðingarmikill þáttur í árangursríku starfi hjálpar- og björgunarsveita á Íslandi. Það var Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu sem fór yfir dæmi um þetta og sagði frá því hvað væri framundan og hvernig mætti nýta upplýsingatækni í björgunarstarfi. 


Björgum mannslífum með þrívíddarprentun 

Með því að búa til útprentuð þrívíddarmódel fyrir flóknar og erfiðar skurðaðgerðir má stytta aðgerðartíma, draga úr kostnaði og bjarga mannslífum. Paolo Gargiulo aðstoðarprófessor hjá HR, Íris Dröfn Árnadóttir, MA nemi í heilbrigðisverkfræði og Dr. Bjarni Torfason yfirlæknir á Hjarta-, lungna- og augnskurðdeild á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi fluttu eftirminnilegan fyrirlestur um þetta efni. Fréttamönnum þótti þessi fyrirlestur nokkuð áhugaverður og bjuggu til litla frétt um málið.Greiðsla án snertingar ku vera framtíðin

Eskil Krag hjá Gemalto talaði um snertilausar kortagreiðslur og hans sögn verða þær stór hluti af greiðslumiðlun framtíðarinnar. Maður er svona ennþá að gera sér í hugarlund hvernig þetta muni virka, en það er allt að gerast í heimi upplýsingatækninnar og því ekkert ómögulegt.

 

Upplýsingatækniverkefni sem stóðst allar áætlanir, ótrúlegt en satt! 

Reginald Curtis er forstjóri NAAFI og í kynningu sinni útskýrði hann hvernig fyrirtækið umbreytti og útvistaði allri upplýsingatækni. Með þessum aðgerðum tókst fyrirtækinu að spara verulegar fjárhæðir.  Lykillinn að þessu var að stjórnendur NAAFI tóku virkan þátt í verkefninu og voru allir staðráðnir í því að láta það takast.Upplýsingatæknin á að vera fyrir alla!

Birkir Gunnarsson hefur farið á kostum á Advania blogginu með snörpum pistlum um mikilvægi aðgengis að upplýsingatækni. Við fengum hann því til að koma til landsins og segja okkur aðeins frá þessu spennandi máli á Haustráðstefnunni.  Hann benti m.a. á arðsemi þess og mikilvægi að fyrirtæki sinni fötluðu fólki þegar þau nota upplýsingatækni til að nálgast sína viðskiptavini. Klárlega málefni sem verður bara heitara með tímanum.Núna verður vit í vélunum

Yngvi Björnsson prófessor í tölvunarfræði fjallaði um gervigreind en hann er einn af helstu sérfræðingum landsins í þessum fræðum og þó víðar væri leitað. Í fyrirlestri sínum fór hann yfir hvernig gervigreind getur nýst í viðskiptalífinu. Í máli hans kom fram að hún muni með tíð og tíma hjálpa til eða taka jafnvel við ákvörðunartöku hjá fyrirtækjum. Það flögraði að manni að sænski þátturinn „Alvöru fólk“ sem sýndur er á RÚV, væri kannski aðeins byggður á sambærilegum rannsóknum?

Nema hvað – við  hjá Advania vorum hæst ánægð með daginn og nokkuð stolt af þéttri og innihaldsríkri dagskrá. Við hlökkum til að halda Haustráðstefnu að ári  með tilheyrandi risaskammti af þekkingarmiðlun og skemmtun – allt til að þú og þitt fyrirtæki getir tekið eitthvað bitastætt með þér „heim“ . TIL BAKA Í EFNISVEITU