25.2.2015 | Blogg

Samspil kennslu og tækni í brennidepli

advania colors line
Í janúar fór ég á BETT sýninguna í London sem er ein stærsta samkoma sem haldin er í veröldinni um kennslu og tækni. Ríflega 35.000 gestir komu á sýninguna og hlýddu á fyrirlestra, skoðuðu vörur og þjónustuframboð tæplega 800 fyrirtækja. 

Skólar stíga fyrstu skref í tæknivæðingu

Samspil kennslu og tækni er mikið rædd á meðal kennara og skólastjórnenda hér á landi. Margir skólar og heilu sveitafélögin eru að stíga sín fyrstu skref í innleiðingu og samþættingu tækni í daglegri kennslu og á þetta jafnt á við bæði grunnskóla og framhaldsskóla. 

Einsleitni búnaðar á undanhaldi

Ég sat fyrirlestur þar sem kennarar og stjórnendur úr tveimur breskum skólum fóru yfir hvernig tækni í kennslu var innleidd fyrir nemendur á aldrinum 11-14 ára.  Í Bretlandi er alltaf leitað að hagkvæmum lausnum og því hófst verkefnið á að kortlegga hvað væri til og hvernig mætti nýta það í skólanum. Samhliða var skoðað með kennurum og ráðgjöfum hvað í tækninni hentaði best hverri námsgrein og hvort hún hjálpaði til við að ná námsmarkmiðum. Bretar hafa lagt metnað sinn í að setja námsmarkmið sem gera ráð fyrir tækni í sínum námsskrám. Upphaflega lögðu þessir skólar upp með að vera með einsleitan búnað. Þar spiluðu inni sjónarmið sem snerta þjálfun starfsmanna, þjónustu  við búnað og fleira í þeim dúr.  

Eftir tvö ár kom í ljós að það gengur ekki upp að nýta aðeins eina gerð af búnaði enda hentar mismunandi tækni fyrir mismunandi verkefni. Sum verkefni kalla á borðtölvur en önnur verkefni kalla til dæmis á fartölvur eða spjaldtölvur. Niðurstaða fyrirlesara frá báðum þessum skólum var að þeir þurfi blandaðar lausnir til að mæta þörfum kennara og nemenda. Ég ræddi við nokkra kennara og stjórnendur í skólum sem voru sumir nokkuð hissa á þessari niðurstöðu. Aðrir sem voru lengra komnir í innleiðingarferlinu staðfestu að þetta hefði einnig verið þeirra reynsla. 

 

Hugbúnaður í skólastarfi

Fyrir mér er hugbúnaður sem notaður er í skólum eins og hvert annað tæki.  Líftími tækja í skólastarfi er mislangur, við skiptum ekki út töflum í skólastofum á hverri önn en við kaupum oft mismunandi töflutúss.  Á BETT var sýnd fjölbreytt úrval af hugbúnaði sem nemendur geta nýtt í sínu námi. 

Einnota öpp

Öpp hafa stuttan líftíma og kosta lítið eða ekki neitt. Því er lítið mál að skipta þeim út eins og henta þykir hverju sinni. Að mínu mati eiga nemendur að velja hvaða app þeir nota til að búa til hluti eins myndband eða glærukynningu. Eina skilyrðið ætti að vera að hægt sé að skoða afurðina á hvaða stýrikerfi eða búnaði sem er. Á BETT var mjög skemmtilegur bás sem bar heitið „framtíðar appið“ og á honum sýndu sprotafyrirtæki skemmtilegar og áhugaverðar APP útfærslur sem við getum kannski nýtt í haust. 

Áhersla að tengjast skýjalausnum

Öðru máli gegnir um hugbúnað sem er hugsaður til notkunar í lengri tíma og er til dæmis notaður fyrir skráningu og varðveislu gagna og rekstri skóla. Þessi hugbúnaður er yfirleitt kallaður SMS og LMS (Student Management System og Learning Management System).  Þessi kerfi þurfa að geta unnið á hvaða búnaði sem er og tengjast þeim öppum sem skólar nota hverju sinni. Sem fyrr er mikið framboð af SMS og LMS kerfum og skoðaði ég mörg þeirra á BETT. Flestir hugbúnaðarframleiðendur í þessum geira einbeita sér nú að því að tengja sín kerfi við skýjalausnir frá Google og Microsoft  með einföldum og hagkvæmum hætti.  

Rekstur og þjónusta við tækni í skólastarfi

Ef gengið er út frá því að ekkert eitt tæki leysi allt í kennslu og að nemendur muni í auknum mæli nota eigin snjalltæki í námi þá stefnir skólakerfið hraðbyri að svokölluðu BYOD (Bring Your Own Device) fyrirkomulagi. Á mannamáli þýðir þetta að hver nemandi notar eigin tæki í náminu. Þetta þýðir minni miðstýringu og minni kvöð fyrir skólana að þjónusta búnaðinn. Margir sem ég ræddi við á BETT tjáðu mér að þeirra skólar væru komnir á þá línu að nemendur geta í raun gert hvað sem þeir vilja við þau tæki sem þeir fá afhend frá skólanum.

Jafningjafræðsla virkar

Ég hlustaði á fyrirlestur þar sem viðkomandi skóli fól áhugasömum nemendum að annast þjónustu á tæknibúnaði sem notaður er í skólastarfi. Í þessu tilfelli var um að ræða nemendur á aldrinum 13-14 ára og skilaði sér þetta í mun betra ástandi á þeim tækjunum. Lykillinn að þessu er jafningjafræðsla, að nemendur hlusta frekar á hvern annan en starfsmenn skólans. 

Samfélagsmiðlar og kennsla á háskólastigi

Á BETT fóru fram áhugaverðar umræður í pallborði um notkun samfélagsmiðla í kennslu á háskólastiginu. Fram komu ólík sjónarmið hversu mikið og á hvaða forsendum ætti að samþætta samfélagsmiðla við kennslu. Dæmi um þetta er notkun Facebook-hópa og Twitter fyrir umræður um námsefni og verkefni. Í umræðunum kom fram að margir kennarar eru með tvo Facebook og Twitter aðganga, einn fyrir kennslu og annan  fyrir persónuleg not. Mörgum kennurum sem þarna tóku til máls fundust mörkin á milli vinnu og einkalífs orðin mjög óljós. 

Aukin notkun upplýsingatækni í kennslunni

Að lokum má nefna hugtakið „Flip the classroom“ sem bar töluvert á góma á ráðstefnunni en það felur í sér að nemendur meðtaka námsefni heima við í gegnum vefinn og ræða um eða vinna með efnið í skólastofunni. Hvort sem menn vilja fara alla leið í slíkri aðferðarfræði eða einungis auka notkun tækni í kennslu þá er ljóst að verkefnið er ekki einfalt. Mikilvægt er að undirbúa bæði nemendur, kennara og aðra starfsmenn vel því að aukin tækninotkun mun breyta verulega starfsemi skóla og náminu sjálfu. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU