7.10.2015 | Blogg

Líðan í þéttbýli könnuð

advania colors line


Borgir heims stækka ört, þar á meðal Reykjavík. Það þarf að bregðast við þessum vexti með einhverjum hætti, til dæmis með breyttu eða nýju skipulagi, og með því að styrkja alla innviði. Ein helsta áskorunin er að tryggja að borgirnar verði áfram sjálfbærar, t.d. með því að tryggja að reksturinn verði ekki of dýr, að komið sé til móts við samfélagslegar þarfir og að mikilvægar náttúrulegar auðlindir gangi ekki til þurrðar. Þá er gjarnan litið á þéttingu byggðar sem álitlegan kost, enda virðist sú leið stuðla að efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri sjálfbærni með því að minnka þjónustusvæðið, auka aðgengi fólks hvort að öðru og taka minna pláss. Ekki má líka gleyma möguleikum þéttrar byggðar til vistvænni samgangna, svo sem notkun reiðhjóla. 

Innri sjálfbærni manneskjunnar

En hvaða áhrif hefur þétt byggð á líðan fólksins sem þar býr? Tengja má líðan við nokkurskonar innri sjálfbærni eða sjálfbærni manneskjunnar. Fræðasvið umhverfissálfræðinnar, sem rannsakar samspil fólks og umhverfis, hefur sérstaklega skoðað svokallaða sálfræðilega endurheimt í þessu samhengi. Sálfræðileg endurheimt er regnhlífarhugtak sem felur í sér öll ferli endurnýjunar á þeirri andlegu, líkamlegu og félagslegu getu sem hefur minnkað vegna fyrirhafnar fólks við að bregðast við kröfum dagslegs lífs. Niðurstöður hafa sýnt að ferli endurheimtar hefur sterka tengingu við vellíðan og heilsu bæði til lengri og skemmri tíma. 


Það má í raun segja að ef umhverfið styður ekki við sálfræðilega endurheimt, þá sé vart hægt að tala um sjálfbærni þess. Það er því afar mikilvægt að skilja hvaða þættir það eru í umhverfinu sem sérstaklega styðja við endurheimt, og tryggja til dæmis að þegar byggð er þétt, að þessir þættir fái ákveðið vægi. 

Notum gagnvirkan sýndarveruleika

Rannsóknir á umhverfi og sálfræðilegri endurheimt hafa ýmist notast við einföld tilraunaumhverfi eða rannsókn á vettvangi. Hægt er að stjórna öllum helstu þáttum tilraunaumhverfis, en upplifunin þar getur verið það fjarri veruleikanum að það rýrir notagildi niðurstaðna. Séu mælingarnar gerðar á vetvangi, verður upplifunin vissulega raunverulegri, en erfiðara verður að einangra ákveðna þætti, svo ekki sé talað um þann ókost að byggingarnar þurfa þegar að vera til staðar. Í ljósi þessa hafa möguleikar gagnvirks sýndarveruleika virkilega átt upp á pallborðið hjá umhverfissálfræðingum. Hægt er að skapa nánast hvaða umhverfisaðstæður sem er í tilraunaumhverfi þar sem upplifunin er nánast sú sama og ef um raunverulegt umhverfi væri að ræða.  Hugmyndafræðilega, getur slík tækni því aukið bæði innra og ytra réttmæti rannsóknanna, auk þess að hún gerir okkur kleyft að upplifa og mæla umhverfi sem enn er á teikniborðinu.

 

Kortleggjum áhrif umhverfisins, áður en það er byggt

Það sem helst stendur í veginum fyrir því að rannsakendur grípi almennt til sýndarveruleikans, er krafa um talsverða tölvukunnáttu til að geta þróað og framkvæmt slíkar tilraunir. Til að brúa þetta bil erum við á Gervigreindarsetri Háskólans í Reykjavík, í samstarfi við Uppsala-háskóla í Svíþjóð, Reykjavíkurborg og fleiri að þróa hugbúnað sem gerir rannsakendum kleift að hanna og keyra sýndarveruleikatilraun, án viðamikillar sérþekkingar á þeirri tækni. Þessi hugbúnaðarþróun hefur átt sér stað undir merkjum verkefnisins “Sjálfbærar borgir framtíðarinnar: Endurheimtandi áhrif þéttbýlis könnuð í sýndarveruleika” sem styrkt er af Rannsóknasjóði Íslands. Það er von okkar að með innleiðingu slíkrar tækni, verði loks hægt að kortleggja hin óáþreifanlegu, en engu að síður mikilvægu, sálfræðilegu áhrif umhverfis áður en það er byggt. 

 

 

Fyrirlestur á Haustráðstefnu Advania 4. September 2015 

TIL BAKA Í EFNISVEITU