8.3.2016 | Blogg

Viðskiptavinurinn í bílstjórasætinu

advania colors line

Netverslun hefur vaxið hratt síðustu árin, þó reyndar hafi þróunin á Ísland hafi verið hægari en víða í kringum okkur.  Þeir sem ætla að ná árangri í verslun á netinu þurfa að átta sig á því að á netinu er það viðskiptavinurinn sem er kominn í bílstjórasætið. Hér á eftir fara nokkur ráð sem gætu hjálpað þeim sem reka netverslanir.  

Umsagnir eru mikilvægar

Ferðaþjónusta er undantekningarlítið bókuð á netinu.   Viðskiptavinir geta að sjálfsögðu keypt þjónustu beint af þeim sem veitir hana en algengt er að viðskiptavinir leiti til milliliða. Þá er átt við aðila sem finna hagstæðasta verðið, finna hvað er laust á einhverju tímabili og taka við bókunum og greiðslum. Bera má saman flugfargjöld gegnum vefi á borð við dohop, finna hagstæða gistingu gegnum booking.com eða bóka Gullna hringinn á Guide to Iceland.  Það sem er sérstakt við þessar bókunarsíður er að þær veita ekki þjónustuna heldur sjá einungis um að miðla henni.  Þetta þýðir að sá veitir þjónustuna þarf einhverja leið til að vekja á sér athygli. Fyrir þjónustuveitendur sem vilja fá athygli og viðskipti í gegnum netið er jákvæð umfjöllun lykilatriði (stjörnugjöf, meðmæli, hrós og deilingar).  Þannig geta viðskiptavinir orðið þinn besti sölumaður.

Gerðu það því auðvelt fyrir viðskiptavininn að segja frá reynslu sinni og gættu þess  auðvitað að veita þjónustu sem fer framúr væntingum.

Ekki láta grípa þig í bólinu

Hefbundnar neysluvörur eins og húsgögn, raftæki, fatnaður og bækur er hægt að kaupa bæði á netinu eða með því að heimsækja verslunina.  Neytendur skoða það sem á að kaupa í verslun, en fara svo á netið til að ganga frá kaupum (gegnum innlendar eða erlendar netverslanir).  Hitt er ekki síður algengt, að skoða á netinu, en fara svo í búðina til að ganga frá kaupum.  Í þessum tilvikum þarf verslunin að vera undir það búinn að viðskiptavinurinn hefur kynnt sér vöruna fyrirfram, eða getur jafnvel gert það meðan hann er í versluninni gegnum snjallsímann.

Snertifletirnir við viðskiptavininn eru þannig orðnir miklu fjölbreyttari en áður.  Í versluninni þarf sölumaður að hafa tiltækar að minsta kosti jafn góðar upplýsingar og viðskiptavinurinn og helst að hafa aðgang að rafrænum vöruupplýsingum á búðargólfinu (líkt og viðskiptavinurinn gerir sennilega gegnum snjallsímann).

Til viðbótar við hefðbundnar auglýsingar og samskipti í versluninni ertu snertifletir meðal annars þinn eigin vefur, vefir samkeppnisaðila og samfélagsmiðlar.  Mikilvægt er að gæta þess að skilaboð fyrirtækisins séu samhæfð, þ.m.t. upplýsingar um verð og gæði vörunnar.   Rétt notkun upplýsingakerfa leikur lykilhlutverk í að upplifun viðskiptavinarins sé jákvæð. Það er ekki trausvekjandi ef sölumaðurinn hefur hvorki eiginleika vörunnar á hreinu né veit hvaða tilboð eru í gangi hverju sinni. 

Ekki láta viðskiptavininn taka þig í bólinu, gættu þess að fólkið þitt hafi aðgang að góðum upplýsingum.  Mundu líka að snertifletirnir eru fleiri en áður og passaðu að það sé samræmi sé í upplýsingagjöf út á markaðinn.  

Höfum gaman

Annað sem þjónustu og smásölufyrirtæki geta gert er að gera verslunarferðina að afþreyingu fyrir viðskiptavininn. Góður kaffibolli, kjötbollur eða leikhorn geta breytt verslunarferð í skemmtilega upplifun fyrir alla fjölskylduna.  Samvinna viðskiptavina eða sjálfsafgreiðsla þeirra getur líka verið lykill að góðri upplifun og þjónustu. Við getum sjálf bókað ferðalag til Indlands, pantað okkur pizzu eða séð um fjármálin í heimabankanum og þannig tökum við beinan þátt í að veita þjónustuna sem við erum að kaupa.  Við veljum gjarnan þá þjónustuaðila sem býður bestu og skemmtilegustu notendaupplifunina og þannig er hægt að fá okkur til að afgreiða okkur sjálf. Frábært dæmi um skemmtilega samvinnu viðskiptavina og birgja er Græni hlekkurinn.  Þetta er netverslun sem selur lífrænt ræktað grænmeti, mjólk og fleira.  Viðskiptavinurinn sér um að panta vörurnar, þeim er svo safnað saman frá mismunandi framleiðendum og afhentar á næstu bensínstöð.  Þannig hjálpast margir aðilar að og útkoman er að mínu mati ein besta verslun á Íslandi.  

Gerðu verslunarferðina að upplifun.  Viðskiptavinurinn vill taka þátt – leyfðu það hvort sem það er gegnum sjálfsafgreiðslu eða að mala kaffibaunirnar sjálfur.

Gerðu þægilegra að versla á netinu á Íslandi

Tollalækkun á fatnaði og fleiri vörum ætti að leiða til þess að fleiri sjái sér hag í að versla hér á landi frekar en á erlendum vefsíðum.  Góðir hlaupaskór sem kosta 140 dollara í Bandaríkjunum (ca. 18.000 kr.) kosta kannski 20.000 kr. í verslun á Íslandi svo munurinn er minni en sem nemur virðisaukaskattinum af vörunni.  Margir hafa pantað eitthvað hjá erlendum netverslunum, en færri nýta sér íslenska netverslun.  Hérna eru klárlega tækifæri fyrir verslunina að gera betur, góð upplýsingakerfi og vel hannaðir vefir ættu að skila sér í fleiri og ánægðari viðskiptavinum, bæði í versluninni sjálfri og gegnum netið.

Finndu út hvernig þú getur boðið þjónustu við hæfi á netinu. Er heimsending samdægurs málið eða vill viðskiptavinurinn sækja vöruna daginn eftir pöntun?

Við hjá Advania bjóðum heildarlausnir fyrir verslun og þjónustu sem hjálpa þér að geta viðskipti við þitt fyrirtæki að góðri upplifun. Ég hvet þig til að hafa samband. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU