Advania þrefaldast í Finnlandi

Advania í Finnlandi eflist til muna eftir að hafa fest kaup á upplýsingatæknifyrirtækinu Accountor ICT.
Það er svo sannarlega nóg um að vera hjá Advania á Norðurlöndunum. Í dag var gengið frá kaupum á finnska fyrirtækinu Accountor ICT sem veitir alhliða þjónustu í upplýsingatækni. Fyrirtækið var áður í eigu Accountor Group en sameinast nú Advania í Finnlandi.
Velta Accountor ICT er um 20 milljónir evra eða um þrír milljarðar króna. Hjá fyrirtækinu starfa um 60 manns sem bætast í hóp þeirra 20 sem fyrir starfa hjá Advania í Finnlandi.
„Nú er ár liðið frá því að Advania keypti fyrirtækið Vintor í Finnlandi og hóf starfsemi þar í landi. Sú starfsemi hefur gengið framar björtustu vonum og styrkja kaupin á Accountor ICT reksturinn þar verulega. Umfang Advania í Finnlandi þrefaldast með viðskiptunum. Nú færum við okkur inn á nýtt starfssvið í Finnlandi og getum boðið uppá alhliða upplýsingatækniþjónustu þar líkt og í Svíþjóð og á Íslandi,” segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.
Með kaupunum fylgja samningar um rekstrarþjónustu við Accountor Group sem tryggja Advania í Finnlandi umfangsmikil verkefni á komandi misserum.
TIL BAKA Í EFNISVEITU